Erlent

Raskanir á skólahaldi í heiminum sagðar án fordæma

Kjartan Kjartansson skrifar
Auð skólastofa í háskóla í Róm. Ítölsk yfirvöld stöðvuðu skólahald tímabundið vegna kórónuveirunnar í gær. Lokunin á að standa yfir fram í miðjan mars að minnsta kosti.
Auð skólastofa í háskóla í Róm. Ítölsk yfirvöld stöðvuðu skólahald tímabundið vegna kórónuveirunnar í gær. Lokunin á að standa yfir fram í miðjan mars að minnsta kosti. Vísir/EPA

Hátt í þrjú hundruð milljónir nemenda um allan heim komast ekki í skóla næstu vikurnar vegna aðgerða ríkja til að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar. Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) telur raskanir á menntun barna og ungmenna nú fordæmalausar og að þær geti teflt rétt þeirra til menntunar í tvísýnu.

Fyrir aðeins um tveimur vikum var Kína eina landið sem stöðvaði skólahald tímabundið til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Á annan tug ríkja hefur nú fellt niður skólastarf.

„Umfangið á heimsvísu og hraði raskana á menntun nú er fordæmalaus og ef hún dregst á langinn gæti það ógnað réttinum til menntunar,“ segir Audrey Azoulay, framkvæmdastjóri UNESCO.

Fleiri en 95.000 manns hafa smitast af veirunni og rúmlega 3.200 hafa látist. Ítölsk stjórnvöld lokuðu öllum skólum og háskólum í gær til 15. mars að minnsta kosti.

Enn fleiri nemendur gætu orðið fyrir áhrifum ef þau níu ríki sem hafa lokað skólum á tilteknum svæðum ákveða að stöðva skólahald á landsvísu. UNESCO áætlar að um 180 milljónir verði þá tímabundið frá skóla, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Ítalir íhuga að loka skólum í tvær vikur

Stjórnvöld á Ítalíu íhuga nú að loka öllum skólum og háskólum um land allt næstu tvær vikurnar. Er það gert vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×