Hnefaleikar voru Kára Kristjáni Kristjánssyni ofarlega í huga þegar hann sendi inn innslag úr skúrnum sínum í Eyjum í Sportið í dag á Stöð 2 Sport.
Handboltalandsliðsmaðurinn og gleðigjafinn sem Kári er hefur tekið því af fullkomnu æðruleysi að greinast með Covid-19 og sent innslög í þáttinn úr einangrun, og haldið því áfram eftir að hann náði fullum bata. Bardagi Hafþórs Júlíus Björnssonar og Eddie Hall, sem ákveðið hefur verið að fari fram í Las Vegas í september 2021, fékk Eyjamanninn til að velta vöngum yfir hnefaleikum.
„Okkar maður Hafþór Júlíus Björnsson ætlar að skafa af sér 40-50 kg. Það er bara eins og heil manneskja. Það verður fróðlegt að fylgjast með því,“ sagði Kári léttur. Kvaðst hann hafa horft á helstu bardaga fyrri ára, spenntur með vini sínum sem hafði þó meiri áhuga á öðru. „Ég horfði á alla bardagana með ömmu hans,“ sagði Kári en skemmtilegt innslag hans má sjá í heild sinni hér að neðan.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.