Franski miðjumaðurinn Paul Pogba verður í leikmannahópi Man Utd gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í stórleik nýársdags ef marka má svar Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Man Utd, á blaðamannafundi í Manchester í dag.
„Já ég reikna með því,“ sagði Solskjær þegar hann var spurður að því hvort Pogba myndi ferðast með liðinu til Lundúna.
Það vakti mikla undrun þegar Pogba var ekki í leikmannahópi Man Utd gegn Burnley á dögunum þar sem hann hafði komið inn af varamannabekknum í síðustu tveimur leikjum liðsins á undan, gegn Watford og Newcastle.
„Þegar þú hefur verið frá svona lengi tekur það alltaf tíma að ná sér 100% góðum. Hann þurfti líklega bara einn dag til viðbótar í endurheimt,“ sagði Solskjær.
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Pogba hjá Man Utd og ýmsar sögur á kreiki þess efnis að hann sé að reyna að losna frá félaginu.

