Enski boltinn

Alisson flaug heim vegna per­sónu­legra mála

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alisson fór heim til Liverpool-borgar.
Alisson fór heim til Liverpool-borgar. Marco Luzzani/Getty Images

Alisson Becker, markvörður Liverpool, hefur yfirgefið æfinga- og keppnisferð liðsins í Asíu og er haldinn heim til Bítlaborgarinnar.

James Pearce, á The Athletic, greinir frá því að persónulegt mál hafi kallað Alisson heim. Ekki kemur fram hvers kyns málið er.

Alisson var ekki meðal þátttakenda á opinni æfingu Liverpool í Tókýó í morgun. Hann fékk leyfi til að fljúga heim og mun því ekki spila leik Liverpool við Yokohama Marinos á morgun. Hann mun hitta hópinn að nýju þegar Liverpool-liðið snýr heim til Bretlands.

Nýi maðurinn Giorgi Mamardashvili mun því að líkindum byrja æfingaleik morgundagsins. Aðrir nýir menn, Amin Pecsi og Freddie Woodman verða honum til halds og trausts.

Liverpool tapaði 4-2 fyrir AC Milan um helgina í Singapúr en eftir leikinn við Yokohama mætir liðið Athletic Bilbao á Anfield þann 4. ágúst.

Tímabilið hefst svo formlega með leik í Samfélagsskildinum við bikarmeistara Crystal Palace um verslunarmannahelgina, sunnudaginn 10. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×