Tími sem hundar og kettir þurfa að vera í einangrun eftir innflutning til landsins verður styttur úr fjórum í tvær vikur.
Þetta kemur fram í drögum sjávar- og landbúnaðarráðherra að nýrri reglugerð um innflutning á hundum og köttum og birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að tillögurnar byggi á áhættumati frá Preben Willeberg, fyrrum yfirdýralækni Danmerkur og þá hafi Matvælastofnun einnig gefið sérfræðiálit sitt.
„Í reglugerðinni er einnig lagt til að einangrun hjálparhunda geti farið fram í heimasóttkví.
Þá er lögð áhersla á að undirbúningur fyrir almennan innflutning fari að mestu fram í heimalandi eða útflutningslandi dýranna, það er hvað varða bólusetningar, rannsóknir, meðhöndlun og heilbrigðisskoðun. Ekki er litið svo á að verið sé að slaka á kröfum heldur er öðrum aðferðum beitt til þess að halda uppi sömu eða jafnvel meiri vörnum gegn smitsjúkdómum en nú er gert,“ segir í tilkynningunni.
Einangrun hunda og katta stytt úr fjórum í tvær vikur
