Erlent

Kona og tvær stúlkur létust í snjóflóði í Ölpunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Val Senales-jökullinn er vinsæll til skíðaiðkunar.
Val Senales-jökullinn er vinsæll til skíðaiðkunar. Vísir/getty

Kona á fertugsaldri og tvær sjö ára stúlkur létust er þær lentu undir snjóflóði í ítölsku Ölpunum í dag. Konan var móðir annarrar stúlkunnar, að því er BBC hefur eftir ítölskum fjölmiðlum. Þær eru allar taldar hafa verið frá Þýskalandi.

Konan var að skíða ásamt stúlkunum við Val Senales-jökulinn í Suður-Týról þegar snjóflóðið féll á þær. Um sjötíu björgunarmenn tóku þátt í leitinni að þeim og notast var við þrjár þyrlur.

Konan og önnur stúlknanna voru úrskurðaðar látnar á vettvangi. Hin stúlkan var flutt á sjúkrahús með þyrlu en lést á leiðinni þangað.

Snjóflóð eru tíð í Ölpunum á þessum árstíma og nokkur slík hafa fallið það sem af er vetri. Nú síðast í gær var skíðakappa bjargað eftir að hafa grafist undir snjóflóði í austurrísku Ölpunum og legið þar í fimm klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×