Laugardalshöllin er orðin mjög gömul og allir sammála um að handbolta- og körfuboltalandsliðin þurfi nýja íþróttahöll. Höllin okkar kemur ekki vel út þegar skoðaður er aldur allra íþróttahallanna þar sem leikir voru spilaðir í undankeppni síðustu EM í handbolta.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tryggði sér sæti á EM 2020 síðasta sumar og verður með á Evrópumótinu í janúar.
Á Twitter-síðunni Höllin er úrelt, sem berst fyrir byggingu nýrrar þjóðarhallar, er bent á athyglisverða staðreynd hvað varðar síðustu undankeppni EM í handbolta.
Tölfræðin yfir aldur keppnishalla, sem hýstu leikina í undankeppninni, kemur ekki vel út fyrir okkur Íslendinga.
Laugardalshöllin er 54 ára gömul og næstelst allra hallanna í undankeppni EM eins og sjá má hér fyrir neðan.
EM í handbolta fer fram í næsta mánuði. Gerði til gamans smá samantekt um aldur keppnishalla sem hýstu leikina í undankeppninni. Kemur ekki vel út fyrir okkur Íslendinga. #HSI_Iceland#handbolti#olísdeildin#seinnibylgjanpic.twitter.com/hZQWPR7lg2
— Höllin er úrelt (@Nyjahollstrax) December 18, 2019
Laugardalshöllin er byggð árið 1965 en 58 prósent leikjanna í þessari undankeppni EM 2020 fóru fram í íþróttahöllum sem voru reistar eftir síðustu aldarmót.
Eistland var eina þjóðin sem lék að meðaltali í eldri keppnishöllum en við Íslendingar en það var þó ekki vegna þess að þeir eigi ekki nýrri þjóðarhöll.
Eistar eiga tiltölulega nýja og glæsilega þjóðarhöll í Riga, sem körfubolta- og íshokkílandsliðin nota. Handboltinn er einfaldlega ekki nógu hátt skrifaður fyrir hana.
Í þessum tölum á twitter síðunni „Höllin er úrelt“ er verið að reikna út meðaldur í mörgum tilvikum þar sem þó nokkrar þjóðir léku ýmist í tveimur eða þremur keppnishöllum.
Í riðlakeppninni lék íslenska landsliðið útileiki í Norður Makaedóníu, Grikklandi og Tyrklandi. Höllin í Tyrklandi var opnuð árið 2012, höllin í Norður Makedóníu var opnuð árið 2008 og höllin í Grikklandi var sú yngsta því hún var opnuð fyrir aðeins fimm árum síðan.