Erlent

Netanjahú samþykkir að boða til formannskosninga innan Líkúd

Andri Eysteinsson skrifar
Staða Netanjahú innan Líkúd hefur jafnan verið betri.
Staða Netanjahú innan Líkúd hefur jafnan verið betri. Getty/Amir Levy
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael og leiðtogi Líkud-flokksins, samþykkti í gær kröfu andstæðinga sinna innan flokksins og hefur boðað til formannskjörs innan sex vikna. Times of Israel greinir frá.

Andstæðingar Netanjahú, með Gideon Sa‘ar fremstan í flokki hafa þrýst á flokksforystu Líkúd eftir að Ríkissaksóknari Ísrael tilkynnti á dögunum að forsætisráðherrann yrði ákærður fyrir spillingu í þremur mismunandi málum.

Þó hafði Sa‘ar lengur kallað eftir formannskjöri en stjórnarkreppa hefur ríkt í Ísrael frá kosningum í September en hvorki Netanjahú né andstæðingi hans, Benny Gantz tókst að mynda ríkisstjórn.

Í kjölfar kosninganna hóf Sa‘ar að kalla eftir því að stokkað yrði upp í æðstu stöðum innan stjórnarflokksins Líkúd sem hefur undir stjórn Netanjahú setið í ríkisstjórn frá árinu 2009. Netanjahú hefur þó hingað til hafnað þeim tillögum Sa‘ar. En með væntanlegum ákærum gegn honum hefur Netanjahú snúist hugur og gæti svo orðið að nýr formaður flokksins verði kjörinn. Netanjahú tók sjálfur við embætti af Aríel Sharon árið 2005 þegar sá síðarnefndi stofnaði Kadima flokkinn.

Ekki liggur ljóst fyrir hvenær innan þessara sex vikna kosningarnar fara fram. Samkvæmt ísraelskum stjórnskipunarlögum eru þó eingöngu sextán dagar til stefnu áður en að boðað verður til þingkosninga á nýjan leik. Andstæðingar forsætisráðherrans hafa kallað eftir því að nýr formaður verði kjörinn innan þess tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×