Logi tjáir sig um málið í færslu á Facebook-síðu sinni eftir miðnætti í gærkvöldi. „Og að svíkja í þokkabót undan skatti - í landi með veika innviði, spillingu og mikla fátækt,“ bætir hann við.
Sjá einnig: „Mætti spyrja sig að því hvort að okkar veiku varnir gegn peningaþvætti hafi auðveldað Samherja verkið“
„En við erum líka dálítið eins og vanþróað ríki þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni okkar. Fáir einstaklingar hagnast gríðarlega á henni og hreiðra um sig, í skjóli hans, út um allt í atvinnulífinu. Ekkert gengur að fá úthlutunarkerfi kvótans breytt og auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Og gjaldið sem er tekið fyrir afnotin er orðið svo lágt að það stendur ekki einu sinni undir kostnaði ríkisins af rannsóknum, eftirliti og umsjón með greininni. Svo lágt að það er lægra en einn útgerðarmaður fékk í arð á síðasta ári.“
Þar vísar Logi til umræðu síðustu daga um fjáraukaalög. Veiðigjöld eiga samkvæmt þeim að skila ríkissjóði um 5 milljörðum króna sem stjórnarandstöðu þykir lítið, ekki síst í ljósi þess að forstjóri Samherja hagnaðist um 5,4 milljarða í fyrra.
Aðalviðmælandi Kveiks í þættinum var Jóhannes Stefánsson sem starfaði sem verkefnastjóri Samherja í Namibíu. Jóhannes fullyrti í þættinum að Samherji hefði gert hvað sem er til að komast yfir kvóta í Namibíu og mútugreiðslur hafi verið engin fyrirstaða.
Fleiri alþingismenn tjáðu sig um umfjöllun Kveiks og meintar mútugreiðslur. Þannig sagði Smári McCarthy þingmaður Pírata að hann hefði óskað eftir sérstökum umræðum á Alþingi við forsætisráðherra um spillingu. „Og nánar tiltekið hvernig við komum í veg fyrir hana.“