Rannsóknin á því hvort að Trump hafi misbeitt valdi sínu sem forseti þegar hann þrýsti á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka pólitíska keppninauta hans hefur fram að þessu farið fram á bak við luktar dyr. Opinber hluti rannsóknarinnar hefst í dag þegar þeir William Taylor, starfandi sendiherra Bandaríkjanna í Kænugarði, og George Kent, aðstoðarvarautanríkisráðherra í málefnum Evrópu og Evrasíuríkja, bera vitni á opnum fundi þriggja nefnda sem stýra henni.
Upphaf rannsóknar þingsins má rekja til þess að uppljóstrari innan leyniþjónustunnar lagði fram formlega kvörtun vegna símtals Trump við Volodýmýr Zelenskíj, forseta Úkraínu, í júlí. Í kvörtuninni kom fram að Trump hefði möguleg misnotað vald sitt með því að þrýsta á Zelenskíj um pólitískan greiða og að Hvíta húsið hefði reynt að hylma yfir það með því að koma eftirriti símtalsins fyrir í tölvukerfi sem ætlað er fyrir háleynilegar upplýsingar.
Fjöldi núverandi og fyrrverandi embættismanna Trump-stjórnarinnar hefur staðfest meginefni kvörtunar uppljóstrarans í framburði fyrir þingnefndunum undanfarnar vikur. Nokkrir þeirra munu nú bera vitni aftur fyrir opnum tjöldum næstu daga.
Vitnin hafa lýst því að Trump og bandamenn hans hafi gert rannsóknir á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og mögulegum mótherja Trump í kosningum næsta árs, og á stoðlausri samsæriskenningu um forsetakosningarnar árið 2016, að skilyrði fyrir um 400 milljóna dollara hernaðarðaðstoð og fundi í Hvíta húsinu sem úkraínsk stjórnvöld sóttust eftir.
Í spilaranum hér fyrir neðan má fylgjast með beinni útsendingu PBS frá framburði Taylor og Kent.
Báru vitni um þrýsting og „lygaherferð“
Taylor tók við sem starfandi sendiherra í Úkraínu eftir að Trump kallaði skyndilega heim Marie Yovanovitch í maí. Vitni í rannsókninni hafa haldið því fram að Yovanovitch hafi verið fórnarlamb ófrægingarherferðar að undirlagi Rudy Giuliani, persónulegs lögmanns Trump.Í upphaflegum vitnisburði fyrir luktum dyrum sagði Taylor að honum hafi verið ljóst að stjórnvöld í Úkraínu fengju ekki hernaðaraðstoð eða fund í Hvíta húsinu sem þau sóttust eftir nema þau féllust á rannsóknir sem Trump sóttist eftir á pólitískum andstæðingum sínum.
Kent átti að hafa umsjón með stefnu Bandaríkjastjórnar gagnvart Úkraínu. Honum var hins vegar ýtt til hliðar þegar Trump fól Giuliani, Gordon Sondland, sendiherra gagnvart Evrópusambandinu, og Kurt Volker, þáverandi sendifulltrúa vegna átakanna í Austur-Úkraínu, að reka nokkurs konar skuggautanríkisstefnu í Úkraínu.
Fyrir þingnefndundunum bar Kent vitni um að Trump vildi að Zelenskíj tilkynnti opinberlega um rannsóknirnar og að hann notaði sérstaklega orðin „Biden“ og „Clinton“. Þetta hefði Kent heyrt frá embættismönnum sem hefðu rætt við forsetann.
Hélt Kent því jafnframt fram að „spilltir“ Úkraínumenn hefðu fengið Giuliani til að grafa undan Yovanovitch sendiherra með „lygaherferð“.