Í samtali við fréttastofu undirstrikar Kristján að heimsókn sín á skrifstofurnar hafi verið „fimm mínútna kurteisishjal og meira veit ég ekki um málið. Ég hef ekkert að fela í þeim efnum,“ segir Kristján. Þannig segist hann ekki hafa vitað að um namibíska áhrifamenn hafi verið að ræða. „Svo er það þannig í þessu blessaða lífi stjórnmálamanna að við hittumst og tökum í hendur á fólki af ólíklegasta toga og þetta er eitt af þeim tilvikum í lífinu,“ segir Kristján.
Sjá einnig: „Lítur illa út“ að sjávarútvegsráðherra hafi verið stjórnarformaður Samherja
Hann neitar að hafa verið boðaður sérstaklega til fundar þennan dag. Hans fundur hafi verið persónulegs eðlis og hann ekkert vitað af viðskiptunum sem fjallað var um í Kveiki í gær fyrr en í síðustu viku þegar Stundin spurðist fyrir um málið.
Hann segir það Samherja að svara fyrir ásakanirnar og minnir á að hann hafi ekki haft afskipti af fyrirtækinu í nítján ár þegar hann hætti í stjórn fyrirtækisins.
Niðurstaða nauðsynleg
Engu að síður muni hann gera það sem hann hafi boðað, þegar hann tók við embætti sjávarútvegsráðherra árið 2017. Komi upp mál sem tengist Samherja muni hann meta hæfi sitt - „og það er enginn efi í mínum huga að ef einhver ákvörðun kemur inn á borð sjávarútvegsráðherra í þessum efnum þá mun ég ekki taka ákvörðun í því máli heldur segja mig frá því.“Hann segir samskipti sín við Samherja í dag vera takmörkuð. „Það er nú þannig að ég hef ekki haft nein einustu afskipti af rekstri eða starfsemi Samherja frá því að ég sat þar í stjórn fyrir 19 árum.“
Hann minnir á að mál Samherja er nú komið á borð héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra og telur Kristján Þór mikilvægt að niðurstaða fáist í málið sem fyrst. Komi á daginn að lög hafi verið brotin muni íslenskt regluverk taka á því. Einstaklingsbundnar skoðanir hans eða annarra á innihaldi Kveiksþáttarins skipti litlu máli í þeim efnum.
Kristján segir að sér þyki málið „eðlilega sorglegt.“ Þátturinn hafi verið sláandi og óumdeilt að umfjöllunin muni skaða orðspor íslensk sjávarútvegs. „Þetta er staða sem við glímum við og þurfum að greiða úr með einhverjum hætti. Fyrst af öllu er að niðurstaða rannsókna okkar opinberu eftirlitsstofnana beri ávöxt og komist til einhverrar niðurstöðu.“