Hinn 34 ára gamli Baldur gekk til liðs við Stjörnuna árið 2016 er hann kom heim úr atvinnumennsku í Danmörku. Alls lék Smalinn, eins og Baldur er oftast kallaður, 92 leiki fyrir Garðabæjarliðið og gerði í þeim 16 mörk. Baldur var lykilmaður í liðinu framan af, var gerður að fyrirliða ásamt því að verða bikarmeistari sumarið 2018.
Í tilkynningu Stjörnunnar kemur fram að á fundi eftir að Pepsi Max deildinni lauk í sumar hafi orðið ljóst að hugmyndir Rúnar Páls þjálfara Stjörnunnar og Baldurs um hlutverk hins síðarnefnda í liðinu færu ekki saman. Því hafa báðir aðilar sæst á að leiðir skilji nú.
Stjarnan þakkar Baldri fyrir vel unnin störf og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.
Baldur Sigurðsson hefur alls leikið 251 leik í efstu deild hér á landi og skorað í þeim 55 mörk. Þá hefur hann leikið 51 bikarleik og skorað 19 mörk.