Með úrskurði dómarans, Beryl Howell, er þannig mikilvægur sigur í höfn fyrir demókrata en svo virðist sem rannsóknin sé ekki háð því að þingsályktunartillaga um hana sé samþykkt með atkvæðagreiðslu í fulltrúadeild þingsins.
Niðurstaðan grefur undan málflutningi Trumps og annarra repúblikana, sem hafa haldið því fram að rannsókn demókrata eigi sér ekki stoð í lögum.
Þá gaf Howell dómsmálaráðuneytinu frest þangað til á miðvikudag til að afhenda óritskoðaða skýrslu Muellers um Rússarannsóknina en hlutar hennar voru afmáðir þegar hún var birt fyrr á árinu. Demókratar hafa óskað eftir skýrslunni í heild, m.a. á grundvelli þess að þar sé að finna upplýsingar um tengsl Pauls Manaforts, fyrrverandi kosningastjóra Trumps, við Úkraínu.
Í frétt Reuters um málið er haft eftir talsmanni dómsmálaráðuneytisins að úrskurður dómarans sé til skoðunar hjá ráðuneytinu.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem demókratar eru með meirihluta, rannsakar nú hvort Trump hafi framið embættisbrot og misbeitt valdi sínu í samskiptum við úkraínsk stjórnvöld fyrr á þessu ári. Rannsóknin hófst eftir að uppljóstrari innan bandarísku leyniþjónustunnar kvartaði undan mögulegu misferli í símtali Trump og Volodimír Zelenskíj, forseta Úkraínu, sem átti sér stað 25. júlí.