Annþór Kristján Karlsson, sem ásamt Berki Birgissyni var handtekinn vegna gruns um að hafa valdið dauða Sigurðar Hólm Siguðrssonar á Litla Hrauni 2012, hefur stefnt íslenska ríkinu.
Annþór og Börkur voru sýknaðir af verknaðinum sem þeim var ætlaður og nú krefst Annþór þess að fá greiddar 64 milljóna króna í bætur fyrir meint tjón og miska sem hann var beittur meðan á rannsókn málsins stóð.
Þetta kemur fram á Frettabladid.is en þar segir að Annþór hafi mátt sæta einangrun allan varðhaldstímann. „Þar sem Annþór var þegar í afplánun meðan málið var til rannsóknar var ákveðið að vista hann á öryggisgangi að gæsluvarðhaldinu loknu frekar en að krefjast nýs dómsúrskurðar um áframhaldandi gæsluvarðhald. Byggði vistun á öryggisgangi á ákvörðun forstöðumanns fangelsisins og gilti hún í þrjá mánuði.“
Fram kemur í fréttinni, en þar er vísað til stefnu, að vistunin hafi verið framlengd fimm sinnum í hverju tilviki í um þrjá mánuði. „Annþór dvaldi því á öryggisdeildinni í um eitt og hálft ár, eða 541 dag, ofan á einangrunarvistina sem hann sætti í upphafi.“
Aðalmeðferð í málinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn.
Að neðan má sjá sjónvarpsfrétt frá sýknudómi í málinu í mars 2016.