Viðskipti innlent

Allt að 1,7 prósenta lækkun á íbúðalánavöxtum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Almennt hefur hægst á fasteignamarkaðnum eftir mikla siglingu undanfarinna ára.
Almennt hefur hægst á fasteignamarkaðnum eftir mikla siglingu undanfarinna ára. Vísir/vilhelm
Vextir á fasteignalánum hafa lækkað um 0,5 til 1,7 prósentustig samhliða 1,25 prósentustiga lækkun á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands frá því í maí. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir október.

Um leið hefur aðeins dregið úr nýjum íbúðalánum frá því í september og frá sama mánuði árið áður.

„Mikill munur er þó á samsetningu nýrra lána en ný óverðtryggð lán hafa aukist um 41% á milli ára meðan verðtryggð lán hafa dregist saman um 51%,“ að því er segir í samantekt um skýrsluna.

Merki um lítinn samdrátt

Almennt hefur hægst á fasteignamarkaðnum eftir mikla siglingu undanfarinna ára. Meðalsölutími íbúða annarra en nýbygginga hefur þó lengi haldist nokkuð stöðugur á höfuðborgarsvæðinu.

Þá hefur dregið úr veltu í byggingariðnaði á árinu og innflutningur á byggingarhráefni hefur dregist saman. Starfsfólki í byggingariðnaði með erlent lögheimili hefur jafnframt farið fækkandi undanfarin tvö ár og fækkar enn. Starfsfólk með íslenskt lögheimili hefur hins vegar ekki verið fleira síðan árið 2008.

„Heildarfjöldi starfsfólks í greininni er því enn með mesta móti. Því fjölgar þó hægar en áður og voru 3% fleiri á öðrum ársfjórðungi þessa árs en á sama tíma í fyrra.“

Skýrslu íbúðalánasjóðs fyrir október 2019 má nálgast í heild hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×