Afi Geirs og nafni varð síðar forsætisráðherra og var umsvifamikill í íslenskum stjórnmálum um áratuga skeið. Ólíkt afa sínum sem var Sjálfstæðismaður fann Geir sinn samastað í Viðreisn, flokki sem var stofnaður um klofning úr Sjálfstæðisflokknum. „Ég er búinn að vera með í Viðreisn frá upphafi,“ segir Geir. „Ég hef alltaf verið áhugasamur um stjórnmál og vissi alltaf að ég myndi vilja láta til mín taka á þeim vettvangi fyrr eða síðar.“

Jómfrúarræða hans í borgarstjórn verður þó væntanlega um samgöngumál sem verða fyrirferðarmikil á dagskrá borgarstjórnarfundarins í dag.
Hann vill ekki halda því fram að stjórnmálaferill afa hans hafi haft mikil áhrif á áhuga hans á stjórnmálum eða þá ákvörðun að bjóða sig fram í borgarstjórn. Geir er fæddur árið 1992 en afi hans Geir Hallgrímsson féll frá árið 1983 svo hann fékk aldrei tækifæri til að kynnast afa sínum. Aðspurður segir hann þó að þeir nafnar séu þeir einu í fjölskyldunni sem hafi látið til sín taka á vettvangi stjórnmálanna.
„Ég held líka að föðurfjölskyldan mín hafi verið búin að fá alveg nóg af pólitík,“ segir Geir léttur í bragði.
„Ég hugsa nú sjaldan lengur en einn sólarhring fram í tímann,“ segir Geir og hlær, spurður hvort hann sjái fyrir sér að feta í fótspot afa síns og verða borgarstjóri þegar fram líða stundir. „En ég útiloka þó ekkert.“