Maðurinn er grunaður um að hafa banað einni konu og sært um tíu manns í árásinni. Hann særðist sjálfur alvarlega eftir átök við lögreglu og dvelur nú á gjörgæslu sjúkrahússins í bænum.
„Hinn grunaði hefur greint frá atburðum þriðjudagsins, en vegna rannsóknarhagsmuna munum við ekki segja meira frá yfirheyrslunum,“ segir lögreglumaðurinn Olli Töyräs í yfirlýsingu. Hann bætir við að til standi að yfirheyra manninn á ný.

Kona frá Úkraínu sögð hafa látið lífið
Hinn grunaði er finnskur ríkisborgari, fæddur í Finnlandi árið 1994, og var sjálfur nemandi í starfsmenntamiðstöðinni þar sem árásin var gerð. Savolax-starfsmenntamiðstöðin er staðsett í verslunarmiðstöðinni Herman, suður af miðborg Kuopio.Óstaðfestar heimildir finnskra fjölmiðla herma að konan sem lést í árásinni hafi verið frá Úkraínu. Fórnarlömb mannsins voru á aldrinum fimmtán til fimmtíu ára og eru sjö þeirra konur.
Maðurinn var vopnaður bæði sverði og skotvopni, en lögregla beitti skotvopnum þegar maðurinn var yfirbugaður.
Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir manninum síðar í dag.