Erlent

Satúrnus tekur fram úr Júpíter með tuttugu nýfundnum tunglum

Gunnar Reynir Valþórsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Nýfundnu tungl Satúrnusar liggja utarlega og taka því á bilinu 2-3 ár að ganga um reikistjörnuna.
Nýfundnu tungl Satúrnusar liggja utarlega og taka því á bilinu 2-3 ár að ganga um reikistjörnuna. AP/NASA/JPL/Space Science Institute
Stjarnfræðingar hafa fundið tuttugu ný tungl á braut um Satúrnus, næststærstu reikistjörnu sólkerfisins. Satúrnus hefur þannig tekið fram úr stóra bróður sínum Júpiter þegar kemur að fjölda tungla. Þekkt fylgitungl Satúrnusar eru því í heildina áttatíu og tvö, en Júpiter er með sjötíu og níu.

Nýju tunglin eru lítil, eða um fimm kílómetrar í þvermál. Sautján þeirra ganga í öfuga átt við snúning Satúrnusar og taka meira en þrjú ár að fara einn hring um reikistjörnuna. Þau fundust með því að beina Subaru-sjónaukanum á Havaí að Satúrnusi.

Talið er að nýuppgötvuðu tunglin tilheyri áður þekktum hópum tungla á braut um Satúrnus. Allir eru þeir taldir leifar áreksturs sem splundraði stærra tungli reikistjörnunnar, að því er kemur fram í frétt Space.com. Enn er talið mögulegt að hundrað enn smærri tungl geti verið ófundin á braut um Satúrnus.

„Svona hópar ytri tungla sjást líka í kringum Júpíter sem bendir til þess að ofsafengnir árekstrar hafi átt sér stað á milli tungla í Satúrnusarkerfinu eða við utankomandi fyrirbæri eins og smástirni eða halastjörnur,“ segir Scott Sheppard frá Carnegie-vísindastofnuninni í Washington-borg í Bandaríkjunum.

Sheppard, sem fann tylft tungla á braut um Júpíter í fyrra, segir að tilvist tunglanna bendi til þess að þau hafi orðið til eftir að Satúrnus var fullmótaður. Þegar gasrisinn var enn í frumbernsku var hann umkringdur gas- og rykskífu. Hefðu tunglin verið til þá hefði allt það efni hægt á þeim með þeim afleiðingum að þau hefðu fallið inn í lofthjúp reikistjörnunnar.

Auk þess að teljast nú formlega með flest tunglin í sólkerfinu státar Satúrnus af tveimur stærri tunglum sem vekja einn mestan áhuga vísindamanna. Títan er þannig eini hnötturinn utan jarðarinnar í sólkerfinu þar sem vitað er um fljótandi vökva á yfirborðinu. Undir þykkum lofthjúpi tunglsins er fjöldi stöðuvatna úr kolvetnum. Þá er mikið neðanjarðarhaf fljótandi vatns talið undir ísskorpu Enkeladusar. Það hefur vakið vonir um að frumstætt líf gæti þrifist við jarðhitastrýtur á hafbotninum líkt og þekkist á jörðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×