Í kjölfarið ákváðu Demókratar á þingi að hefja formlegt ákæruferli á hendur Trump fyrir embættisbrot.
Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs kom hraði vendinga í Washington Trump-liðum á óvart.
Sjá einnig: Reyndu að fela upplýsingar um símtal Trump og Zelensky
Í stuttu máli er hægt að skilgreina vörnina í nokkrum liðum: Að grafa undan embættismönnum sem koma að málinu. Senda Rudy Giuliani, einkalögmann Trump, og aðra bandamenn hans í fjölmiðla til að gera atburðarrásina, einstök atriði hennar og staðreyndir óskýrari. Svo treystir forsetinn á þingmenn Repúblikanaflokksins, og þá sérstaklega þá á öldungadeildinni, til að skýla honum.
Þar að auki snúast varnir Trump að miklu leyti um gagnárásir hann á þá sem herja á hann. Bæði í fjölmiðlum og á Twitter.
Með þessu vilja Trump-liðar tryggja stuðning grunn-stuðningsmanna Trump í aðdraganda forsetakosninga á næsta ári.
Nornaveiðarnar byrjaðar aftur
Orð og setningar eins og nornaveiðar, hneyksli, forsetaáreiti, „það hefur aldrei verið komið jafn illa fram við forseta“ og „þetta má ekki gerast aftur“, eru farin að birtast í miklu magni á Twitter-síðu Trump og í yfirlýsingum hans til fjölmiðla.AP fréttaveitan segir Hvíta húsið skorta þá skipulagningu og aga sem þurfi til að berjast gegn ákæru fyrir embættisbrot. Þar að auki séu starfsmenn þreyttir og niðurlútir eftir rannsókn Mueller.
Þegar Bill Clinton, fyrrverandi forseti, var ákærður á sínum tíma var hópur reyndra lögmanna í Hvíta húsinu og fjöldi upplýsingafulltrúa sem allir komu að vörnum Clinton. Staða Hvíta hússins nú er ekki sambærileg.
Þá óttast bandamenn Trump að hann og teymi hans einblíni of mikið á pólitískar deilur í tengslum við uppljóstrarakvörtunina svokölluðu en ekki hættur rannsókna Demókrata og mögulegrar ákæru fyrir embættisbrot.
Taldi kæru hagnast sér
Um mánaðabil stóð Trump í þeirri trú að hann myndi hagnast á ákæru fyrir embættisbrot og hefur hann meðal annars vísað til þess að Demókrataflokkurinn jók fylgi sitt þegar Clinton var ákærður. Þar að auki þykist hann viss um að öldungadeild þingsins muni ekki víkja honum úr embætti en til þess þarf tvo þriðju þingmanna. Repúblikanar eru með nauman meirihluta á öldungadeildinni.Politico segir Trump þó hafa byrjað að líta málið alvarlegri augum þegar leið á vikuna og þegar hann og aðstoðarmenn hans áttuðu sig á þeim hraða sem málið hefur náð.
Í fyrstu taldi Trump að gagnsæi hans með birtingu uppskriftar af símtali hans og Zelenski myndi hjálpa til þó starfsmenn hans óttuðust að það myndi hafa öfug áhrif. Sem það virðist hafa gert.
Þá hefur miðillinn eftir aðstoðarmönnum og bandamönnum Trump að þeir óttist að hann muni versna í skapi við aðgerðir Demókrata og ekki geta einbeitt sér að stjórn Bandaríkjanna og kosningabaráttunni. Vísa þeir til þess hve mikið Mueller og rannsókn hans fangaði athygli forsetans.