Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í nótt tilkynning frá flugstjórn um að bláum geisla hafi verið beint að tveimur farþegaþotum sem verið var að lenda í Keflavík. Tilkynningin barst skömmu eftir miðnætti og var talið að geislinn hafi komið frá ákveðnu hverfi í Kópavogi. Athugun lögreglu leiddi þó ekkert í ljós.
Sterkir geislar af þessu tagi geta haft mjög truflandi áhrif á flugmenn, sér í lagi þar sem þeir eru að koma inn til lendingar.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, þar sem einnig kemur fram að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu í heimahúsi í Kópavogi. Þar var karlmaður handtekinn á vettvangi og grunaður um húsbrot og líkamsárás gegn íbúa hússins.
Þá voru tveir erlendir aðilar handteknir í Breiðholti um klukkan sex í gær. Þeir voru mjög ölvaðir og að angra fólk. Þegar lögregluþjóna bar að garði voru þeir ósamvinnuþýðir og ógnandi í hegðun.
Geisla beint að flugvélum í aðflugi
Samúel Karl Ólason skrifar
