Forseti Kína kynnti verkefnið Belti og braut fyrir um sex árum. Er það byggt á hinni fornu Silkileið en Belti stendur fyrir landleiðir en braut fyrir sjóleiðir. Sendiherra Kína á Íslandi, Jin Zhijian, segir verkefnið snúast í grófum dráttum um að ríki gangist undir tvíhliða samkomulag um aðkomu Kínverja að innviðauppbyggingu.
„Á undanförnum rúmum sex árum höfum við séð mikla framþróun. Við höfum undirritað tvíhliða samninga við rúmlega 120 ríki, við næstum 30 alþjóðasamtök, og þarna eru 17 Evrópuríki,“ segir Zhijian.

„Samkvæmt opinberum upplýsingum er íslenska ríkisstjórnin opin fyrir þeirri hugmynd að undirrita þessa viljayfirlýsingu á viðeigandi tíma í framtíðinni. Við vonumst til að Ísland taki þátt í þessu framtaksverkefni,“ segir Zhijian.
Á þessari stundu sé of snemmt að segja til um hvaða framkvæmdir það yrðu en helst yrði horft til hafna og flugvalla. Ekki sé skilyrði að undirgangast alla skilmála verkefnisins, Ísland geti gert samninga um einstök verkefni líkt og Finnar. Er Finnar með í bígerð að bora neðansjávargöng frá Helsinki til Tallin og að leggja járnbraut frá finnsku borginni Rovaniemi til norska bæjarins Kirkens. Bæði Kínverjar og Evrópusambandið koma að þeim verkefnum.

Hefur Bandaríkjaher áformað sjö milljarða króna í mannvirkjauppbyggingu á Keflavíkurflugvelli á næsta ári.
Í maí síðastliðnum tók Ísland við formennsku í Norðurskautsráði en á flokksráðsfundi Vinstri grænna, flokki Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands, sem var haldinn um helgina, var aukinni vígvæðingu í Norðurhöfum og á Norðurslóðum mótmælt einróma.
Zhijian segir Kína vilja stuðla að heimsfriði og enginn hafi hag af vígbúnaðarkapphlaupi á Norðurslóðum.
„Við höfum ekkert á móti þróun tvíhliðatengsla á milli Íslands og Bandaríkjanna en við vonum að hver meðlimur alþjóðanefndarinnar leggi sitt af mörgum til friðar og þróunar mannkynsins en ekki einstakra landa.“