Angela Merkel Þýskalandskanslari gaf í dag til kynna að hún gæti snúið aftur til starfa í fræðasamfélaginu eftir að kanslarasetu hennar lýkur árið 2021. Merkel, sem er eðlisfræðingur að mennt og hefur sinnt kanslaraembættinu frá árinu 2005, var veitt heiðursdoktorsgráða af þýska skólanum HHL Leipzig Graduate School of Management í dag.
„Allir þeir háskólar sem hafa veitt mér heiðursdoktorsgráðu munu heyra frá mér aftur þegar ég er ekki lengur kanslari,“ sagði Merkel í ræðu sinni við tilefnið.
„Ég mun snúa aftur og mun ekki stoppa eins stutt og í dag. Ég mun staldra lengur við,“ sagði Merkel jafnframt við hlátur viðstaddra.
Ljóst er að ef kanslarinn stendur við orð sín þá mun hún hafa þó nokkra skóla til að velja úr um, en hún hefur fram til dagsins í dag alls hlotið sautján heiðursdoktorsgráður.
Merkel fékk heiðursgráðuna afhenta í útskriftarathöfn skólans og var Christine Lagarde, sem hefur verið útnefnd sem næsti bankastjóri Seðlabanka Evrópu, meðal viðstaddra.
Merkel steig til hliðar sem leiðtogi Kristilega demókrataflokksins á síðasta ári eftir sárt fylgistap í kosningum árið áður. Hún tilkynnti í kjölfarið að núverandi kjörtímabil yrði hennar síðasta í embætti kanslara.
Merkel segist ætla að snúa aftur í háskóla

Tengdar fréttir

„Hefur verið draumur lengi að koma til Íslands“
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók á móti Angelu Merkel, kanslara þýskalands, á Þingvöllum í dag.

Telur ólíklegt að Boris Johnson fái Merkel til að skipta um skoðun
Boris Johnson hefur heitið því að reyna að endursemja við ESB en einnig gefið út að Bretland muni yfirgefa Evrópusambandið þann 31. október næstkomandi, þó það þýði að Bretar fari út án samnings.

Angela Merkel vakti mikla athygli á rölti sínu um borgina
Merkel kom hingað til lands í dag vegna sumarfunds leiðtoga Norðurlandanna sem fram fer á morgun

Þaulsætni kanslarinn
Angela Merkel sækir Ísland heim sem gestur fundar norrænna forsætisráðherra. Hefur setið lengur en nær allir Þýskalandskanslarar og getið sér gott orð.