Innlent

Launa­munur æðstu stjórn­enda sveitar­fé­laga og annarra starfs­manna ó­rétt­látur

Sylvía Hall skrifar
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Mynd/BSRB
Laun bæjar- og sveitarstjóra hafa lítið breyst frá síðasta ári þegar tekjur þeirra voru harðlega gagnrýndar eftir að álagningarskrá ríkisskattstjóra var gerð opinber. Engin fylgni er á milli þess hvað æðsti yfirmaður sveitarfélags er með í tekjur og hve margir búa í sveitarfélaginu.

„Sveitastjórnum og bæjarstjórnum er það sjálfsvald sett hvernig laun eru ákveðin og það er mjög misjafnt á milli sveitarfélaga hvaða viðmiða þau horfa til. Stundum er horft til launaþróunar þáverandi kjararáðs, stundum er horft til launsetningar samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga BHM eða BSRB þannig það er mjög misjafnt,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Hún segir Samband íslenskra sveitarfélaga taka saman skýrslu annað hvert ár þar sem farið er yfir þróun launa æðstu fulltrúa og hver þau eru. Skýrslunni er skipt upp í sjö stærðarflokka eftir því hversu margir búa í sveitarfélögunum. Engin tengsl virðast þó vera á milli íbúafjölda og launa þeirra sem fara með stjórn í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Sjá einnig: Sveitarstjórnarmenn frekir á fóðrum

„Það sem við teljum að skjóti skökku við er að okkar fólk, okkar félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum eru allir á sömu launum eftir starfsheitum yfir landið allt. Þannig það er búið að búa til viðmið fyrir þau öll en ekki fyrir æðstu stjórnendur.“

Sonja segir launamun stjórnenda og annarra starfsmanna sveitarfélaga vera ákveðið óréttlæti. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýndi þennan launamun, sagði hann vera „svívirðilegan“ og til marks um óþolandi misskiptingu og misrétti í þjóðfélaginu.

„Ef við tökum til dæmis móttökuritarana sem eru hjá sveitarfélögunum og eru með lægstu launin, í kringum 305 þúsund, og metum þá svo við þá sem eru hæstir á þessum lista, þeir eru með níföld launin þeirra. Auðvitað verðum við að gæta sanngirni og réttlætis innan sveitarfélaganna þannig að fólk upplifi að það sé verið að meta það að verðleikum,“ segir Sonja sem er vongóð að umræðan skili sér til hins betra. 

Umræða um laun æðstu fulltrúa sveitarfélaga er ekki ný af nálinni. Í fyrra vakti það mikla athygli þegar laun Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjastjóra Kópavogs, hækkuðu um 32,7 prósent milli áranna 2016 og 2017 eða sem nemur ríflega 612 þúsund krónum á mánuði. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði launin vera óhóf.

Þetta er óhóf og þetta er líka ábyrgðarhluti hjá stjórnendum hjá hinu opinbera af því að ábyrgðin á stöðugleikanum verður ekki lögð á herðar lægst launaða fólksins,“ sagði Katrín í viðtali í Víglínunni í fyrra.


Tengdar fréttir

Mánaðarlaun bæjarstjórans hækkuðu um 612 þúsund

Laun kjörinna fulltrúa Kópavogsbæjar hækkuðu umtalsvert á milli áranna 2016 og 2017 þrátt fyrir að þeir hafi ekki þegið hækkun kjararáðs. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri fékk tæpar 2,5 milljónir í laun á mánuði í fyrra og laun bæjarstjórnar- og bæjarráðsfulltrúa hækkuðu um 30 prósent á milli ára.

Segir launahækkunina vera í samræmi við launaþróun

Ármann Kr. Ólafsson segir laun bæjarstjóra Kópavogs hafa fylgt úrskurði kjararáðs áratugum saman og því ekki um sérstaka hækkun að ræða, en laun hans hækkuðu um 32,7 prósent milli áranna 2016 og 2017. Þetta kom fram í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×