Verkefnið um teymisvinnu lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi hefur heppnast einstaklega vel en það hófst 1. febrúar á þessu ári. Tilgangur teymisvinnunnar er að forgangsraða og dreifa verkefnum á þann fagaðila sem er hæfastur eða best til þess fallinn að sinna þeim hverju sinni.
Allir hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðinni á Selfossi koma að teymisvinnunni. Inn í teymið fléttast svo starfskraftar sjúkraliða, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfara, auk annarra sérfræðinga þegar við á. Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands kynnti teymisvinnuna á opnum fundi með heilbrigðisráðherra á Selfossi í vikunni.
„Í stað þess að allir séu að hringja inn á morgnanna í kappi við að fá tíma hjá lækni þá hringja hjúkrunarfræðingarnir til baka í alla þá sem óska þess að koma með erindi á heilsugæsluna og sjá til þess að koma erindum í réttan farveg. Þannig að hjúkrunarfræðingarnir eftir eðli erindis geta bókað sjúkling í tíma hjá lækni, annað hvort í tíu mínútur, tuttugu mínútur eða þrjátíu mínútur, eftir því hversu stórt og viðamikið erindið er,“ segir Herdís.

„Það er skemmst frá því að segja að í sextíu prósent tilfella þá geta hjúkrunarfræðingarnir leyst erindið án þess að þú þurfir að panta tíma hjá lækninum og þá ýmist eru erindin leyst af hjúkrunarfræðingnum sjálfum eða í samvinnu að sjálfsögðu við lækni eða þá að erindið fer inn til læknaritara eða leyst með öðrum hætti,“ segir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Herdís segir að með nýja fyrirkomulagi þá komist skjólstæðingar heilsugæslustöðvarinnar miklu fyrr til læknis en áður og þjónustan er orðin mjög markviss og skýr, sem sé mjög ánægjuleg þróun í bættri þjónustu heilsugæslustöðvarinnar á Selfossi.
Um 15-18% fleiri komast nú að í hefðbundinn viðtalstíma hjá lækni innan tveggja daga en áður var, sem þakka má teymisvinnunni.