Pepsi Max mörkin tóku Kristján Flóka fyrir í þætti sínum í gærkvöldi og hvað hann muni gefa KR-liðinu, ekki bara í ár heldur á næstu árum. Pepsi mörkin eru á því að með Flóka innanborðs hafi liðið spilað sinn besta sóknarleik í sumar.
„Kristján Flóki er hvalreki fyrir KR-inga og þeir geta væntanlega notið hans næstu árin,“ sagði Hörður Magnússon, umsjónarmaður Pepsi Max markanna í upphafi umræðunnar um nýja framherja toppliðsins.
„Hann stimplaði sig heldur betur vel inn í deildina í gær. Hann var ekki mikið áberandi í fyrri hálfleik en var sívinnandi og að setja pressu á varnarmennina. Svo kórónar hann síðan leikinn sinn með marki og stoðsendingu,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, sérfræðingur í Pepsi Max mörkunum.
„Það hefur verið sagt um hann að hann sé svona alhliða nía,“ sagði Hörður á meðan farið var yfir atriði sem Hallbera tók saman úr leik Kristjáns Flóka á móti Grindavík.
„Þetta er púra senter og það er frábært fyrir KR-inga að vera komnir með þannig leikmann í liðið sitt. Hann var alltaf af finna sér svæði og er alltaf að ógna. Hann kemur sér líka fljótt inn í teiginn,“ sagði Hallbera.
„Þeir eiga eftir að njóta hans í nokkur ár ef hann heldur sér í Pepsi Max deildinni en ef hann kemst á strik í deildinni heima þá er hann bara að fara aftur út,“ sagði Hallbera.
Það má finna alla umfjöllunina um Kristján Flóka og hans fyrsta leik í KR-búningnum í myndbandinu hér fyrir neðan.