Franskur kafbátur, sem hafði verið saknað í hálfa öld, komst í leitirnar fyrir skemmstu. Varnarmálaráðherra Frakka, Florence Parly, tilkynnti þetta á Twitter fyrr í dag en hann sagði fundinn vera mikinn létti sem og tæknilegt afrek.
Fimmtíu og tveir voru í áhöfn kafbátsins Minerve sem hvarf nærri höfn Toulon á suðurströnd Frakklands í janúar árið 1968.
Frönsk yfirvöld höfðu áður leitað kafbátsins en án árangurs.
Parly tilkynnti fyrr á árinu að leit yrði hafin að nýju en aðstandendur þeirra sem skipuðu áhöfn bátsins höfðu farið fram á það.
Sagði Parly að hugur sinn væri hjá fjölskyldum þeirra sem fórust með Minerve þegar hann tilkynnti um fundinn fyrr í dag.
Hópurinn sem stóð fyrir leitinni greindi gögn frá slysinu, þar á meðal hvernig öldurnar voru á þeim tíma, til að reyna að finna út hvar flak kafbátsins er.
AFP greinir frá því að áhöfn báts, sem er í eigu bandaríska fyrirtækisins Ocean Infinity, hafi fundið flakið.
Fannst kafbáturinn 45 kílómetra út frá Toulon á 2.370 metra dýpi.
Enn í dag liggja orsök slyssins, sem varð þess valdandi að kafbáturinn fórst, ekki fyrir.

