Stór vika er framundan fyrir Pedro Sánchez, starfandi forsætisráðherra Spánar og leiðtoga Sósíalistaflokksins, sem mun á næstu dögum leitast eftir stuðningi þingsins fyrir myndun ríkisstjórnar.
Sánchez fær tvö tækifæri í vikunni til þess að tryggja sér meirihlutann í neðri deild spænska þingsins en hefur enn sem komið er enga tryggingu fyrir því að umboðið fáist.
Sósíalistaflokkur hans vann flest þingsæti í kosningum sem fram fóru fyrir þremur mánuðum en náði ekki meirihluta á þinginu. Forsætisráðherrann þarf að tryggja stuðning 176 þingsæta af alls 350, en flokkur hans er með 123 sæti á þinginu.
Til þess þarf Sánchez að hljóta stuðning frá vinstri flokknum Podemos og öðrum smærri flokkum.
Fregnir hafa borist af því að viðræður Sánchez við Podemos hafi farið vel af stað en ef forsætisráðherrann nær ekki að tryggja sér stuðning meirihluta þingsins í vikunni eru taldar líkur á því að kallað verði til nýrra þingkosninga.
Ef tilraunir Sánchez takast ekki í þessari viku mun hann fá tvo mánuði í viðbót til að semja við aðra flokka áður en Filippus sjötti, konungur Spánar leysir upp þingið og boðar til nýrra kosninga. Þær kosningar yrðu þá þær fjórðu á síðastliðnum fjórum árum.
Sánchez tók við embætti forsætisráðherra fyrir um ári síðan þegar forveri hans, íhaldsmaðurinn Mariano Rajoy, stóðst ekki vantrauststillögu í þinginu.
Sánchez fór fyrir minnihlutastjórn þangað til í febrúar á þessu ári þegar katalónskir aðskilnaðarsinnar felldu fjárlagafrumvarp hans. Í kjölfarið kallaði hann til kosninga.
Erfið vika framundan fyrir Sánchez sem reynir enn að mynda ríkisstjórn

Tengdar fréttir

Vinstriflokkarnir gætu unnið kosningasigur á Spáni
Kosið verður á Spáni 28. apríl. Útlit er fyrir að hægriöfgaflokkur komi mönnum á þing í fyrsta skipti frá endurreisn lýðræðis.

Spánverjar ganga til kosninga
Líkur eru á langri og erfiðri stjórnarmyndun eftir kosningar þar sem fimm flokkar berjast um að komast í ríkisstjórn.

Spillingarmál skekur stjórnarflokkinn á Spáni
Lýðflokkur Mariano Rajoy var dæmdur í stóru spillingarmáli í síðustu viku. Stjórnarandstaðan hefur lýst yfir vantrausti og talar um nýjar kosningar.