Körfubolti

Tim Duncan verður aðstoðarþjálfari bandaríska landsliðsins í körfubolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Duncan og Gregg Popovich.
Tim Duncan og Gregg Popovich. Getty/Tom Pennington
Tim Duncan er mættur á ný í körfuboltann eftir nokkra ára fjarveru og hefur nú ráðið sig í tvö störf. Í báðum tilfellum mun hann aðstoða sinn gamla lærimeistara Gregg Popovich.

Fyrst fréttist að Tim Duncan yrði aðstoðarþjálfari Gregg Popovich hjá bandaríska körfuboltalandsliðinu á heimsmeistaramótinu í haust en svo var það einnig tilkynnt að Duncan ætli að aðstoða Popovich hjá San Antonio Spurs á komandi NBA-tímabili.

Gregg Popovich kom að sjálfsögðu með einn klassískan vinkil á þessa ráðningu. „Það er vel við hæfi eftir að ég starfaði í nítján ár sem aðstoðarmaður Tim Duncan að hann launi mér nú greiðann,“ sagði Gregg Popovich eins og sjá má hér fyrir neðan.





Duncan verður aðstoðarþjálfari San Antonio Spurs ásamt þeim Will Hardy, Chip Engelland og Becky Hammon. Will Hardy er einnig nýr í þessu starfi en hann hefur unnið sig upp hjá félaginu frá því að byrja sem lærlingur árið 2010.

Tim Duncan er 43 ára gamall og lagði körfuboltaskóna á hilluna árið 2016. Hann spilaði allan sinn feril með San Antonio Spurs og alltaf undir stjórn Gregg Popovich. Saman unnu þeir meðal annars fimm NBA-meistaratitla.

Duncan var valinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í tvígang eða 2002 og 2002. Hann var tíu sinnum valinn í fyrsta úrvalslið tímabilsins og komst fimm sinnum að auki í annað og þriðja úrvalsliðið. Hann var einig átta sinnum valinn í fyrsta varnarlið ársins og sjö sinum að auki í annað varnarlið ársins.

Tim Duncan spilaði alls 1392 deildarleiki með San Antonio Spurs og var með 19,0 stig, 10,8 fráköst, 3,0 stoðsendingar og 2,0 varin skot að meðaltali í þeim. Í 251 leik í úrslitakeppninni var hann með 20,6 stig, 11,4 fráköst, 3,0 stoðsendingar og 2,3 varin skot að meðaltali í leik eða hærri tölur en í deildarleikjunum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessum frábæra leikmanni takist upp sem þjálfari.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×