HK-ingar unnu í gær 2-0 sigur á FH-ingum í Kórnum og fögnuðu þar með þriðja sigri sínum í röð í Pepsi Max deild karla í fótbolta.
HK-liðið er nú komið með 17 stig í deildinni og er í áttunda sæti deildarinnar þegar þrettán umferðir eru af baki.
HK-ingar fengu samt aðeins fimm stig út úr fyrstu átta leikjum sínum í sumar og sátu þá í fallsæti eftir 2-1 tap á móti Víkingum í sannkölluðum sex stiga leik 14. júní síðastliðinni.
Brynjari Birni Gunnarssyni, þjálfara HK og aðstoðarmönnum hans tókst þá að snúa við blaðinu og sjálfstraust HK-liðsins hefur vaxið með hverjum leiknum að undanförnu.
HK vann 2-0 útisigur á ÍA í slag nýliðanna í næsta leik og hefur nú unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum. Liðið hefur einnig unnið Breiðablik, KA og nú síðast FH.
Aðeins leikurinn á móti Val tapaðist en þar voru HK-ingar yfir í 25 mínútur og fengu á sig sigurmark á fimmtu mínútu í uppbótatíma.
Það er aðeins topplið KR sem hefur náð í fleiri stig í síðustu fimm leikjum sínum af liðum Pepsi Max deildarinnar og Vesturbæingar hafa aðeins einu stigi meira en HK á þessum tíma.
HK er líka með plús fimm mörk í markatölu á þessum tíma og eru þar með bestu markatöluna ásamt KR-liðinu. Hér fyrir neðan má sjá bestan árangur liðanna í undanförnum fimm leikjum sínum.
Besti árangur liða í Pepsi Max deild karla í síðustu fimm leikjum:
1. KR 13 stig (Markatala: +5)
2. HK 12 stig (+5)
3. Valur 10 stig (+3)
4. Stjarnan 8 stig (+4)
5. Fylkir 7 stig (-2)
6. FH 7 stig (-1)
7. Breiðablik 7 stig (+1)
8. Víkingur 6 stig (0)
9. ÍA 6 stig (0)
10. Grindavík 4 stig (-1)
11. KA 1 stig (-5)
12. ÍBV 0 stig (-9)
HK í öðru sæti yfir besta árangurinn í síðustu fimm leikjum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið

Glórulaus tækling Gylfa Þórs
Íslenski boltinn








Van Dijk tjáir sig um samningaviðræðurnar
Enski boltinn
