Viðskipti innlent

Ballarin segist hafa tryggt nýja WOW allt að 12,5 milljarða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Michele Ballarin segir Skúla Mogensen ekki tengjast nýja flugfélaginu. Hún þekki hann þó vel.
Michele Ballarin segir Skúla Mogensen ekki tengjast nýja flugfélaginu. Hún þekki hann þó vel. Vísir/getty
Michele Ballarin, bandaríska athafnakonan sem hyggst endurreisa flugfélagið WOW air, segist í viðtali við ViðskiptaMoggann í morgun hafa tryggt félaginu allt að hundrað milljónir Bandaríkjadala, eða um 12,5 milljarða íslenskra króna, til rekstursins. Þá herma heimildir ViðskiptaMoggans að greiðslur fyrir eignir úr þrotabúi WOW air hafi enn ekki borist en greint var frá því í Fréttablaðinu fyrr i þessum mánuði að viðskiptin væru frágengin.

Sjá einnig: Ballarin sögð skjóta upp kollinum á ólíklegustu stöðum: Ég er forvitinn hvað hún ætlar að gera með WOW og eignirnar“



Ballarin lýsir fyrirætlunum sínum á Íslandi í ítarlegu viðtali við ViðskiptaMoggann. Hún segist hafa heyrt af Íslandi í gegnum góða vini sína og viðskiptafélaga hér á landi. Eftir að hafa eytt dágóðum tíma á Íslandi hafi hún fengið betri skilning á gildi staðsetningar landsins fyrir flugsamgöngur, svo og gildi landsins sem ferðamannastaðar. 

Íslenskt fyrirtæki með höfuðstöðvar rétt hjá Katrínartúni

Þá lýsir Ballarin því hvernig hún hafi komið til Íslands daginn eftir fall WOW air. Hún segist þess fullviss að WOW muni „nú rísa upp eins og fuglinn Fönix, eins fljótt og hægt er.“

Til þess hafi hún fengið að borðinu reynda aðila úr bandarískum flugheimi og horfi til viðskiptamódels bandaríska flugfélagsins SoutWest Airlines. Stofnað verði íslenskt fyrirtæki sem fara muni með 51% hlut í WOW 2 á móti 49% í bandarískri eigu. Höfuðstöðvar verði nálægt höfuðstöðvum WOW air í Katrínartúni.

Þá verði þrjár vélar í flota nýja félagsins til að byrja með, allar af gerðinni Airbus A321 NEO. Hún segir Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra WOW air, jafnframt ekki tengjast félaginu.

 

Greiðslum „að ljúka“

Ballarin kveðst hafa tryggt WOW 2 85 milljónir Bandaríkjadala, eða 10,5 milljarða íslenskra króna. Sú upphæð eigi að duga félaginu fyrsta árið. Talan geti þó hækkað ef þörf verði á, eða upp í allt að 12,5 milljarðar króna.

Þá er haft eftir Ballarin að greiðslum fyrir WOW „sé að ljúka“. Hinir keyptu hlutir séu margvíslegar rekstrarvörur, varahlutir, tæki og handbækur. Hún segir þó ekki tímabært að upplýsa um það hvað hún hafi borgað þrotabúinu fyrir WOW.

 

Áhyggjur af ítökum asískra fjárfesta á Íslandi

Ballarin lýsir jafnframt áhyggjum af uppgangi Kínverja og annarra Asíuþjóða í Afríku, en hún hefur stundað mikil viðskipti í Sómalíu. Ballarin óttast þennan sama uppgang á Íslandi og nefnir í því samhengi fjárfestingu asísks viðskiptamanns í hótelrekstri hér á landi, en ætla má að þar sé átt við kaup auðkýfingsins Vincents Tan á hótelum Icelandair.

„Ég vil að Ísland verði áfram Ísland og í eigu Íslendinga,“ segir Ballarin. Þess vegna sé hún hingað komin til að fjárfesta í samgöngugeiranum.

Fjallað var um Ballarin í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Þar var rætt við Mark Mazzetti, blaðamann New York Times, sem fjallað hefur um Ballarin í blaðagreinum og bók. Hann sagði það ekki koma sér á óvart að Ballarin hygðist fjárfesta í þrotabúi WOW air, hún eigi það til að skjóta upp kollinum á ólíklegustu stöðum.


Tengdar fréttir

Boðberi mannúðar í Sómalíu eða miskunnarlaus málaliði

Athafnakonan Mich­ele Ballarin er hergagnaframleiðandi og sjálfskipaður samningamaður í mannránum. Hún hefur þegið greiðslur frá Pentagon og boðið aðstoð í stríði gegn hryðjuverkum. Nú ætlar hún að endurreisa WOW air.

Hafa fundað um flugrekstarleyfi

Kaupandi eigna þrotabús WOW air vinnur nú að því að undirbúa nauðsynleg gögn svo hægt sé að sækja formlega um flugrekstarleyfi hjá Samgöngustofu. Fulltrúar kaupandans hafa átt nokkra fundi með stofnuninni.

Ballarin sögð skjóta upp kollinum á ólíklegustu stöðum: "Ég er forvitinn hvað hún ætlar að gera með WOW og eignirnar“

Það kemur ekki á óvart að Michele Ballarin, sem sögð er vera kaupandi af stórum hluta eigna úr þrotabúi WOW air, hyggist endurreisa félagið. Þetta segir blaðamaður hjá New York Times sem hefur skrifað um hana í bókum og blaðagreinum. Hún sé óvenjulegur persónuleiki og eigi það til að skjóta upp kolli á ólíklegustu stöðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×