Innlent

Sautján þúsund lítrar af olíu láku úr bílnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Fá vettvangi slyssins.
Fá vettvangi slyssins. Vísir
Um sautján þúsund lítrar af olíu láku úr tanki olíuflutningabílsins sem valt á veginum um Öxnadalsheiði fyrr í dag. Þegar þetta er ritað á enn eftir að fjarlægja bílinn af vettvangi og einnig jarðveg sem olían komst í.

Olían lak í Grjótá sem er nærri veginum en Sigurjón Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi á Norðurlandi vestra, segir olíuslikju hafa verið sjáanlega í Grjótá og alveg við ármótin við Norðurá. Í Norðurá hafi slikjan ekki verið sjáanleg en þó olíubragð af vatninu þegar Sigurjón smakkaði það. Ekki er um vatnsverndarsvæði að ræða og komst því olían ekki í neysluvatn.

Slökkviliðsmenn hafa lokið störfum á vettvangi en starfsmenn Olíudreifingar, sem eiga olíuflutningabílinn sem valt, eru að störfum eins og er ásamt fulltrúum Umhverfisstofnunar.

Ekki er vitað hversu mikinn jarðveg þarf að fjarlægja vegna olíulekans, það mun koma í ljós þegar hreinsunarstarfið er komið vel á veg, en Sigurjón vonast til að fjarlægja þurfi eins lítinn jarðveg og hægt er.

Öxnadalsheiði er enn lokuð vegna slyssins. Vonast er til að vegurinn opni um kvöldmatarleitið. Bent er á hjáleið fyrir Tröllaskaga, gegnum Ólafsfjörð.


Tengdar fréttir

Öxnadalsheiði lokað vegna slyss

Búið er að loka Öxnadalsheiði vegna umferðarslyss skammt vestan Grjótár, á meðan á björgunaraðgerðum stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×