Englendingurinn Matt Donohue fær það verkefni að dæma leik Víkings og Breiðabliks í Pepsi Max deild karla í kvöld.
Landi hans, Akil Howson, verður aðstoðardómari 2 en þetta er hluti af samstarfi íslenska og enska knattspyrnusambandsins sem verið hefur í gangi undanfarin ár.
Donohue dæmdi leik Víkings Ólafsvíkur og Þróttar í Inkasso-deild karla á fimmtudag og var einnig með flautuna á lofti á Grenivík á laugardag þegar Magni tók á móti Fjölni.
Upphaflega átti hann að vera fjórði dómari á leik kvöldsins en nú hefur verið tilkynnt að hann dæmi leikinn.
Donohue hefur dæmt í C- og D-deildinni á Englandi en hans bíður verðugt verkefni í kvöld þar sem um er að ræða mikilvægan leik í Pepsi-Max deildinni þar sem Víkingar þurfa nauðsynlega á sigri að halda í fallbaráttunni.
Leikur Víkings og Breiðabliks hefst klukkan 19:15 og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport.

