Hryðjuverkamenn í Afganistan notuðu barn til að gera sjálfsmorðsárás á brúðkaupsveislu í austurhluta landsins í morgun. Að minnsta kosti fimm fórust um fjörutíu særðust en árásin beindist að liðsforingja hersveita sem eru hliðhollar stjórnarhernum.
Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir talsmanni Nangarhar-héraðs að barn hafi verið látið gera árásina. Heimildir herma að um ungan táning hafi verið að ræða.
Talibanar, sem ræða nú við afgönsk og bandarísk stjórnvöld um frið, hafa afsalað sér ábyrgð á ódæðinu. Vitað er að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams eru virk á svæðinu. Þau hafa verið sökuð um hrinu sjálfsmorðsárása sem felldu tugi manna.
