Pepsi Max deild kvenna er um það bil hálfnuð og það er mikil spenna í titilbaráttu Vals og Breiðabliks sem og í neðri hlut deildarinnar þar sem eru aðeins fjögur stig á milli liðanna í fimmta og tíunda sæti.
Pepsi Max mörk kvenna fóru yfir það í síðasta þætti sínum hverjar höfðu staðið sig best í fyrri umferð deildarinnar.
„Ég segi ekki að við séum að velja þetta úrvalslið fyrri umferðar en við erum að koma með tillögu að því,“ sagði Helena Ólafsdóttir, umsjónarmaður Pepsi Max marka kvenna.
Í þessari tillögu af úrvalsliði fyrri umferðar eru fjórir leikmenn úr Val og fjórir leikmenn úr Breiðabliki. Hinir leikmennirnir koma síðan úr ÍBV, Keflavík og Selfossi.
„Við vorum ekki alveg sammála um þetta og það má því rökræða hana,“ sagði Helena og gaf sérfræðingum sínum orðið sem voru að þessu sinni þau Mist Rúnarsdóttir og Gunnar Rafn Borgþórsson.
Gunnar Rafn saknaði helst Valskonunnar Dóru Maríu Lárusdóttir. „Hún er búin að verða betri og betri með hverjum leiknum,“ sagði Gunnar. Hann nefndi líka Grace Rapp hjá Selfossi og að það væru tvær til þrír aðrir markmenn sem kæmu til greina.
„Vantar ekki líka markahæsta leikmanninn í deildinni þarna inn? Það er bullandi samkeppni um sætin í liðinu og Margrét Lára (Viðarsdóttir) er búin að vera frábær líka,“ sagði Mist en Stephany Mayor hjá Þór/KA er eini leikmaður deildarinnar sem hefur náð að brjóta tíu marka múrinn.
Það má finna alla umfjöllunina um úrvalslið fyrri umferðarinnar í myndbandinu hér fyrir neðan.
Tillaga að úrvalsliði fyrri umferðar í Pepsi Max mörkum kvenna:
Sandra Sigurðardóttir, Val
Barbára Sól Gísladóttir, Selfossi
Kristín Dís Árnadóttir, Breiðabliki
Guðný Árnadóttir, Val
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Breiðabliki
Cloé Lacasse, ÍBV,
Natasha Moraa Anasi, Keflavík
Alexandra Jóhannsdóttir, Breiðabliki
Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki
Elín Metta Jensen, Val
Hlín Eiríksdóttir, Val