Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Íslandsmeistara Vals, segir að Valsmenn ætli sér að slá slóvenska liðið Maribor úr keppni er liðin mætast í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Fyrri leikur liðanna fer fram á Origo-vellinum að Hlíðarenda í kvöld og segir fyrirliðinn að það sé enginn bilbugur á Valsmönnum að finna.
„Við eigum klárlega möguleika og ætlum okkur áfram úr þessu einvígi,“ sagði Haukur Páll fyrir æfingu Vals í gær.
„Við viljum ná langt í Evrópu í ár og þá þurfum við að vinna þetta lið í tveimur leikjum. Við getum það klárlega.“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Maribor mætir íslensku liði því fyrir tveimur árum sló Maribor FH úr keppni, samanlagt 2-0.
„Það eru gloppur í þeirra leik eins og við sáum. Þeir eru að byrja sitt tímabil núna og eru ekki í fullri leikæfingu. Það á kannski eftir að hjálpa okkur smá.“
Íslenskt lið hefur ekki aldrei komist í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en hvað þurfa íslensk lið að gera til þess að komast í riðlakeppnina?
„Það er samspil nokkurra hluta. Þú þarft að eiga algjöran toppleik á leikdegi þegar liðin mætast og það er margt sem spilar inn í en það mun gerast,“ sagði fyrirliðinn.
Leikur Vals og Maribor hefst klukkan 20.00 í kvöld en leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Fyrirliði Vals segir að íslenskt lið muni komast í Meistaradeildina
Anton Ingi Leifsson skrifar
Mest lesið





Þeir bestu (6. sæti): Mókollur, Uxi og sumarið 1995
Íslenski boltinn


Höfnuðu í þriðja sæti en urðu samt meistarar
Enski boltinn


Starf Amorims öruggt
Enski boltinn
