Erlent

Yfirmaður í sjóher Venesúela lést í varðhaldi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Varnarmálaráðuneytið staðfestir að Acosta sé látinn. Ljósmyndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Varnarmálaráðuneytið staðfestir að Acosta sé látinn. Ljósmyndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Getty/Bloomberg
Varnarmálaráðuneyti Venesúela staðfesti í dag að Rafael Acosta, kafteinn í sjóher Venesúela, væri látinn. Ekkja hins látna fullyrðir að Acosta hefði sætt pyntingum í varðhaldi vegna meintrar aðkomu hans að valdaráni sem Nicolas Maduro, forseti Venesúela, segir að hafi verið í uppsiglingu.

Í síðustu viku sakaði Maduro nokkra háttsetta menn í hernum um að brugga sér launráð ásamt stjórnarandstöðunni og nokkrum erlendum þjóðarleiðtogum. Maduro kvaðst sannfærður um að ætlunin hafi verið að steypa sér af stóli.

Acosta var leiddur fyrir herrétt fyrir helgi en hann féll í yfirlið áður en unnt var að rétta yfir honum. Varnarmálaráðuneytið sagði í stuttri yfirlýsingu í dag að dómari í máli hans hefði látið fara með Acosta á sjúkrahús.

„Þrátt fyrir að við veittum honum viðeigandi læknisaðstoð lést hann,“ sagði í yfirlýsingunni.

Nicolás Maduro forseti Venesúela sakaði í síðustu viku nokkra háttsetta menn í hernum um að brugga sér launráð.epa
Í yfirlýsingu frá bandaríska innanríkisráðuneytinu er stjórn Maduros gefið að sök að hafa pyntað Acosta til dauða.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Maduro hefur beitt ofbeldi gegn pólitískum föngum.“

Þá var kallað eftir því að lýðræðisríki heims fordæmi mannréttindabrotin og beiti sér fyrir því að hinir seku verði látnir sæta ábyrgð.

Waleska Perez, ekkja Acosta, sagði að hann hefði varla verið með meðvitund í dómsal vegna þess að hann hefði orðið fyrir barsmíðum og pyntingum.

„Þeir pyntuðu hann það mikið að þeir náðu að drepa hann“.

Alþjóðlegar eftirlitsstofnanir og hjálparsamtök hafa í auknum mæli fylgst með öryggissveitum Maduro vegna gerræðislegra ákvarðana þeirra um varðhald og ómannúðlegs aðbúnað fanga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×