Erlent

Tugir látnir eftir rútuslys á Indlandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sjálfboðaliðar aðstoðuðu við björgunarastörf í gær.
Sjálfboðaliðar aðstoðuðu við björgunarastörf í gær. getty/str
Hið minnsta 44 eru látin og tugir slasaðir eftir að rútu var ekið ofan í gljúfur á Indlandi í gær. Rútan er sögð hafa verið yfirfull, sumir farþegar hafi jafnvel setið á þaki rútunnar og lýsa vitni því hvernig ökumaður hennar virðist hafa misst stjórn á bílnum, sveigt út af veginum og ofan í djúpt gilið. Slysið átti sér stað í Himachal Pradesh, héraði í norðurhluta Indlands sem telst til Himalajafjalla, hæsta fjallgarðs í heimi.

Lögreglustjóri á svæðinu segir í samtali við AFP að þorri farþega hafi verið konur og börn sem voru á heimleið eftir vinnu og skóla.

Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, vottaði aðstandendum hinna látnu samúð sína á samfélagsmiðlum og sagðist vona að hinum slösuðu yrði hjúkrað til heilsu sem fyrst.

Umferðarslys eru daglegt brauð á Indlandi og í Himachal Pradesh einu rötuðu 30 þúsund umferðaróhöpp á borð lögreglu á árunum 2009 til 2018. Samkvæmt Times of India létust 11 þúsund manns í indversku umferðinni á því árabili og um 54 þúsund særðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×