Landspítalinn braut ekki lög við mat á umsókn sjúklings um fyrirbyggjandi meðferð við HIV. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar. Málið snerist um ítarleganspurningalista sem einstaklingi bar að svara vegna umsóknar hans um meðferðina. Spurningalistinn innihélt spurningar um kynlíf og kynhegðun umsækjanda.
Í kvörtun einstaklingsins til Persónuverndar kemur fram að hann taldi spurningalistann vera mjög persónulegan og að honum bæri ekki að gefa starfsfólki Landspítalans ítarlegar upplýsingar um kynlíf sitt. Kvartandi taldi spurningarnar og ferlið sem hann þurfti að ganga í gegnum til að fá lyfið afhent vera meiðandi.
Vegna þessa hafi sá sem um ræðir ákveðið að sleppa því að svara spurningalistanum og fær sökum þessa ekki ávísað lyfinu.
Landspítalinn segir í skýringum sínum til Persónuverndar að Lyfjaafgreiðslunefnd hafi sett takmarkanir á ávísun lyfsins og að aðeins sé heimilt að ávísa lyfinu á þá einstaklinga sem séu í raunverulegri hættu á að fá HIV veiruna. Sú áhætta sé metin með spurningalista sem lagður sé fyrir sjúklinga.
Segir jafnframt í bréfi Landspítalans að sjúklingar séu upplýstir um þetta verklag áður en spurningalistinn sé lagður fyrir þá og að svörin séu ópersónugreinanleg.
Persónuvernd gerði ekki athugasemd við að umræddur spurningalisti væri notaður til að meta hættu á HIV smiti, svo lengi sem Landspítalinn fylgdi ákvæðum laga um að vinnsla persónuupplýsinga sé viðeigandi og ekki umfram það sem er nauðsynlegt. Einnig var það mat Persónuverndar að vinnsla spítalans fylgi ákvæðum um að slíkar upplýsingar skuli unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti.

