Körfubolti

Kevin Durant hafnaði fjórum milljörðum frá Golden State Warriors

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant sleit hásin í úrslitakeppninni.
Kevin Durant sleit hásin í úrslitakeppninni. Getty/Gregory Shamus
Kevin Durant ætlar ekki að nýta sér ákvæði í samningi sínum við Golden State Warriors og því laus allra mála frá félaginu.

Bandaríski fjölmiðlamaðurinn Adrian Wojnarowski sagði frá ákvörðun Kevin Durant á twitter síðu sinni í dag.





Kevin Durant hefði getað fengið 31,5 milljón dollara fyrir 2019-20 tímabilið með Golden State Warriors en hann mun samt ekkert spila á tímabilinu. Þetta eru tæpir fjórir milljarðar í íslenskum krónum.

Durant skrifaði undir samning við Golden State fyrir ári síðan. Hann fékk 30 milljónir dollara fyrir 2018-19 tímabilið og það var síðan hans val hvort hann spilaði annað tímabil og fengi þá 31,5 milljón dollara.

Kevin Durant sleit hásin í lokaúrslitum NBA á dögunum og verður ekki leikfær á ný fyrr en 2020-21 tímabilinu.

Hann er að leita eftir lengri samningi og eflaust eru mörg félög tilbúinn að veðja á það að hann nái sér að fullu af meiðslunum enda frábær leikmaður á ferðinni.

Durant skoraði 32,3 stig að meðaltali í úrslitakeppninni áður en hann meiddist. Hann vann titilinn með Golden State Warriors 2017 og 2018 og var kosinn besti leikmaður lokaúrslitanna í bæði skiptin.

Durant er staddur í New York með umboðsmanni sínum Rich Kleiman þar sem þeir munu skoða það sem er í boði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×