Mikið álag hefur verið á sjúkraflutningamönnum á Selfossi og á Hvolsvelli síðan í gær. Allt tiltækt lið var sent á vettvang flugslyssins í Fljótshlíð í gærkvöldi en yfir hvítasunnuhelgina hafa sjúkraflutningamenn sinnt þrjátíu og fimm sjúkraflutningum á svæðinu.
Á fjörutíu og fjórum klukkustundum yfir helgina voru þrettán þessara útkalla á hæsta forgangi. Felst hafa útköllin verið vegna veikinda og minni slysa. Svæði sjúkraflutningamanna er víðfeðmt, í Árnes- og Rangárvallasýslu og því geta sjúkraflutninga tekið langan tíma.
Hermann Marínó Maggýjarson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands segir, í samtali við fréttastofu, álagið hafa verið mikið enda margt um manninn á Suðurlandi í blíðviðrinu sem þar hefur verið en að auki fór fram bæjarhátíðin Kótelettan á Selfossi.
Íbúafjöldi á svæðinu margfaldast yfir sumartímann vegna fjölda orlofshúsa á svæðinu og mikil umferð var um Suðurlandsveg sem og aðra vegi í uppsveitum Árnes- og Rangárvallasýslu.