Forseti Mexíkó segist búast við því að samkomulag náist við Bandaríkin um innflytjendamál áður en refsitollar á mexíkóskar vörur sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað taka gildi í næstu viku.
Trump boðaði tollana til að neyða mexíkósk stjórnvöld til að koma í veg fyrir að fólk frá Mið-Ameríku reyni að komast yfir landamærin að Bandaríkjunum. Tollarnir eiga að taka gildi 10. júní og ná til allra mexíkóskra var sem fluttar eru inn til Bandaríkjanna. Í fyrstu umferð yrði 5% tollur lagður á mexíkóskar vörur en hann yrði síðan hækkaður þar sem mexíkósk stjórnvöld gæfu eftir Trump.
Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó, segir að ríkisstjórn hans sé með tillögu í smíðum sem hún ætli að kynna bandarískum embættismönnum á fundi í Washington-borg á morgun, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Ég held að fundurinn á morgun verði mikilvægur og að samningur náist fyrir 10. júní,“ sagði López Obrador í dag.
Washington Post segir aftur á móti frá áhyggjum þingmanna Repúblikanaflokks Trump af tollunum. Einhverjir þeirra eru sagðir byrjaðir að ræða hvort að þingið þurfi að grípa inn í og koma í veg fyrir að tollarnir taki gildi. Þingmennirnir telja að tollar á mexíkóskar vörur jafngiltu skattahækkun á bandarísk fyrirtæki og neytendur.
