Körfubolti

Stjarna næturinnar í úrslitum NBA ætlaði að verða prestur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pascal Siakam.
Pascal Siakam. Getty/Gregory Shamus
Hetja fyrsta leiksins í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfubolta á að baki mjög óvenjulega sögu á leið sinni í deild bestu körfuboltamanna heimsins.

Toronto Raptors byrjaði fyrsta úrslitaeinvígi félagsins í sögunni með sannfærandi sigri á NBA-meisturum Golden State Warriors. Óvæntast af öllu var frammistaða 25 ára Kamerúnmanns í sínum fyrsta leik á stærsta sviðinu.

Pascal Siakam átti nefnilega magnaðan leik, hitti meðal annars úr ellefu skotum í röð og endaði með 32 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Hann hitti úr 14 af 17 skotum sínum í leiknum.





Pascal Siakam er aðeins á sínum þriðja tímabili í NBA-deildinni og flestir búast við því að hann verði kosinn sá leikmaður deildarinnar sem bætti sig mest á milli ára.

Pascal Siakam fór úr því að vera með 7,3 stig, 4,5 fráköst og 2,0 stoðsendingar að meðaltali 2017-18 í það að vera með 16,9 stig, 6,9 fráköst og 3,1 stoðsendingu að meðaltali í deildarkeppninni í ár.

Í úrslitakeppninni er hann kominn upp í 18,7 stig í leik en skoraði 6,6 stig að meðaltali í úrslitakeppninni í fyrra. Framfarirnar eru ótrúlegar. Hann hefur alltaf verið orkubolti og góður varnarmaður en nú hefur hann bætt við mjög fjölbreytilegum sóknarleik.

Pascal Siakam getur nefnilega skorað á mjög mismunandi hátt og bauð upp á körfur í öllum regnboðalitum í fyrsta leik lokaúrslitanna.





Leið hans inn í NBA-deildina er sérstök hann fæddist í bænum Douala í Kamerún. Siakam er yngstur fjögurra bræðra en faðir hans vann við samgöngukerfi svæðisins og var einnig borgarstjóri Makénéné. Faðir hans lést í bílslysi þegar Pascal var tvítugur.

Pascal Siakam var góður námsmaður en var valinn úr hópi drengja á svæðinu til að verða kaþólskur prestur. Hann var í prestaskóla í fjögur ár eða allt þar til að hann ákvað það fimmtán ára gamall að hann vildi ekki verða prestur lengur.

Eldri bræður hans, Boris, Christian og James. höfðu allir fengið skólastyrk til að spila fyrir bandaríska háskóla en áhugi Pascal Siakam á körfubolta var takmarkaður á þessum árum.





NBA-leikmaðurinn Luc Mbah a Moute, sem spilaði sjálfur 686 leiki í NBA, uppgötvaði hins vegar strákinn og var læriföður hans fyrstu árin.

Siakam tók meðal annars þátt í körfuboltabúðum með Luc Mbah a Moute þar sem hann vakti mikla athygli þrátt fyrir að kunna lítið í körfubolta. þróttahæfileikarnir og dugnaðurinn hrifu þá sem á horfðu og meðal þeirra var Masai Ujiri, forseti Toronto Raptors, sem var staddur í  Basketball Without Borders körfuboltabúðum.

Pascal Siakam fór fyrst til Bandaríkjanna sextán ára gamall, spilaði með New Mexico State í háskólaboltanum og var síðan valinn af Toronto Raptors númer 27 í nýliðavalinu 2016.

Hjá Toronto Raptors liðinu hefur Pascal Siakam fengið tíma til að vaxa og dafna sem körfuboltamaður. Hann byrjaði í aukahlutverki, fékk síðan orkuboltahlutverk á tímabili tvö en er núna orðinn einn af stjörnuleikmönnum liðsins.











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×