Nýliðar ÍA eru og verða á toppi Pepsi Max deildar karla í fótbolta eftir fimmtu umferðina þótt að þrír leikir fari fram í kvöld. Sigur Skagamanna í Kópavoginum í gær sá til þess.
Einar Logi Einarsson tryggði ÍA 1-0 sigur á Breiðabliki í toppslag deildarinnar með marki í uppbótatíma leiksins. ÍA er þar með búið að ná í þrettán stig af fimmtán mögulegum það sem af er á þessu tímabili.
Það er mjög athyglisvert að bera þetta saman við síðasta tímabil Skagamanna í efstu deild eða sumarið 2017. ÍA fékk þá samtals sautján stig allt sumarið og varð að sætta sig við fall úr deildinni um haustið.
Skagaliðið er þegar búið að afreka það sem þetta lið frá 2017 náði aldrei en það er að vinna fjóra deildarleiki.
ÍA vann aðeins þrjá leiki samanlagt í úrvalsdeildinni sumarið 2017 en þeir sigrar voru á móti ÍBV (27. maí), Fjölni (19. júní) og KA (10. september).
Skagamenn hafa aldrei áður verið búnir að vinna fjóra deildarleiki 19. maí en það verður þó að taka inn í að tímabilið byrjar fyrr í dag en á árunum áður.
Skagamenn unnu einnig fjóra sigra í fyrstu fimm umferðunum þegar þeir voru nýliðar sumarið 2012 en þeir sigrar komu í fjórum fyrstu leikjunum. Liðið var þá á toppnum eftir fimmtu umferð eins og nú. Fjórði sigurinn kom 20. maí eða degi síðar en í ár.
Þegar ÍA varð síðast Íslandsmeistari sumarið 2001 þá vann liðið sinn fjórða deildarsigur í leik á móti Grindavík (3-1) en hann var 27. júní og í 7. umferðinni.
Hér fyrir neðan má sjá hve lengi Skagamenn hafa þurft að bíða eftir deildarsigri númer fjögur á þeim tímabilum sem þeir hafa verið í efstu deild á 21. öldinni.
Hvenær kom fjórði sigur Skagamanna á þessari öld:
2019 - Í 5. leik, 19. maí
2017 - Kom aldrei (3 sigurleikir)
2016 - Í 10. leik, 11. júlí
2015 - Í 13. leik, 26. júlí
2013 - Kom aldrei (3 sigurleikir)
2012 - Í 4. leik, 20. maí
2008 - Kom aldrei (2 sigurleikir)
2007 - Í 9. leik, 4. júlí
2006 - Í 11. leik, 17. júlí
2005 - Í 9. leik, 7. júlí
2004 - Í 10. leik, 10. júlí
2003 - Í 13. leik, 10. ágúst
2002 - Í 10. leik, 11. júlí
2001 - Í 7. leik, 27. júní
2000 - Í 8. leik, 26. júní
Skagamenn með fleiri sigra í sumar en allt síðasta tímabil þeirra í efstu deild
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið

Vandræði KR við nýja völlinn: „Hér var bara mýri og ruslahaugur“
Íslenski boltinn

„Hagsmunum félagsins best borgið með sölu á leikmanninum“
Íslenski boltinn



Liverpool gæti orðið meistari strax á miðvikudag
Enski boltinn


Ástbjörn missir af næstu leikjum KR
Íslenski boltinn

Saka ekki alvarlega meiddur
Enski boltinn

Slot sáttur fyrir hönd Trent Alexander-Arnold
Enski boltinn
