Innlent

Frostmark og slydda í kortunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það má búast við örlítilli vætu næstu daga.
Það má búast við örlítilli vætu næstu daga. vísir/hanna
Það verða litlar sviptingar í veðrinu næstu daga ef marka má spá Veðurstofunnar. Engu að síður gæti kólnað á norðanverðu landinu um helgina og því gæti fylgt slydda. Þó má búast við „keimlíku veðri“ í dag og á morgun; frekar hægri norðaustanátt, einhverri vætu víða og skýjuðu veðri.

Seinni partinn er útlit fyrir skúrakennt veður og þá gæti sést til sólar á milli skúranna. Hiti helst fyrir ofan frostmark og fer jafnvel upp í 14 eða 15 stig þegar best lætur um vestanvert landið.

Þá er ekki að sjá að miklar breytingar verði á veðrinu fram að helgi. Þó mun líklega kólna eitthvað og er útlit fyrir slyddu um norðanvert landið þar sem hiti fer mjög nálægt frostmarki.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag og fimmtudag:

Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Skýjað á landinu og víða svolítil væta. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast á SV-landi.

Á föstudag:

Breytileg átt, skýjað að mestu og skúrir á víð og dreif, einkum S- og V-lands. Kólnar lítið eitt.

Á laugardag:

Austan og norðaustan 5-13 m/s. Víða dálítil rigning, jafnvel slydda í innsveitum N- og A-lands. Hiti frá 2 stigum fyrir norðan, upp í 9 stig á SV-landi.

Á sunnudag:

Norðlæg átt 5-10 m/s og léttir til S-lands, en skýjað fyrir norðan og rigning eða slydda NA-til. Hiti 0 til 9 stig, svalast á NA-horninu.

Á mánudag:

Útlit fyrir norðlæga átt og slyddu um landið N-vert, annars þurrt. Kólnar heldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×