„Því það er nákvæmlega það sem þeirra málflutningur ber með sér, þegar nánar er að gáð.“
Silja tjáir sig á Facebook en þingmenn Miðflokks, þar sem í brúnni eru fyrrverandi lykilmenn innan Framsóknarflokksins, hafa haldið uppi málþófi undanfarið í umræðu um þriðja orkupakkann. Þingfundur er á dagskrá klukkan 15:30 í dag þar sem áfram stendur til að ræða þriðja orkupakkann. Aðeins þingmenn Miðflokks eru á mælendaskrá.
Orð Silju Daggar skýra ágætlega þá gjá sem virðist vera á milli Miðflokksins og Framsóknarflokksins. Formaður Miðflokksins er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og formaður þingflokksins er Gunnar Bragi Sveinsson. Sigmundur var forsætisráðherra og Gunnar Bragi utanríkisráðherra í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins áður en upp úr sauð innan Framsóknar.
„Ætli það sé óhætt að vera áfram í norrænu samstarfi að þeirra mati? Gæti verið að hættuleg erlend öfl, mögulega sôsíaldemókratísk, gætu leitt þjóðina í glötun...“ veltir Silja Dögg upp í kaldhæðnistón.
„Sorglega fyndið, og eiginlega kaldhæðnislegt, að flokkur sem telur sig fylgja sterkum, kjarkmiklum foringja, sé svona skíthræddur við erlent samstarf. Að trúa því að menn bíði í röðum að hrifsa eitthvað af okkur. Að engu sé treystandi, síst af öllu samstarfsþjóðum okkar til áratuga.“
Svo verði þetta sama fólk sármóðgað ef minnst sé á „einangrunarhyggju“.
Silja Dögg veltir fyrir sér hvort ekki kveikni einhverjar viðvörunarbjöllur hjá fólki þegar það hlusti á málflutning Miðflokksmanna.
„Miðflokkurinn er eini flokkurinn sem talar með þessum hætti í orkupakkamálinu. Í þeim þingflokki er fólk sem faldi peninga í Panama, laug ítrekað að þjóðinni, fólk sem mætti ekki til vinnu í heilt ár og þáði samt laun fyrir og fólk sem afhjúpaði mannfyrirlitningu sína á Klausturbar fyrir stuttu síðan. Segir það ekki eitthvað um trúverðleika þeirra málflutnings?“