Samkeppni Íslensk stjórnvöld hafa fallist á rök ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, um að Fríhöfnin sé ríkiseinkasala og þurfi þar af leiðandi að innleiða nýtt verklag til að tryggja að vörum og heildsölum verði ekki mismunað. Þá þarf að tryggja jafnræði í auglýsingum og kynningum á áfengistegundum.
Þetta kemur fram í bréfi sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi ESA þar sem greint er frá því að stjórnvöld hafi endurskoðað afstöðu sína til málsins og fallist nú á málflutning eftirlitsstofnunarinnar. Bréfið var sent um miðjan apríl, aðeins um einum og hálfum mánuði eftir að ráðuneytið sendi annað bréf þar sem rökum ESA var andmælt.
Forsagan er sú að ESA barst kvörtun árið 2016 frá íslenskum áfengisinnflytjanda sem sagði að Fríhöfnin hefði ekki tekið upp neinar hlutlægar eða gegnsæjar reglur um innkaup. Reglurnar virtust handahófskenndar og þar af leiðandi hefði fyrirtækið ekki getað komið vörum sínum í hillur Fríhafnarinnar.
Niðurstaða ESA var sú að sala áfengis í verslunum Fríhafnarinnar bryti í bága við EES-samninginn, nánar tiltekið 16. grein samningsins. Í raun væri ríkiseinokun í Fríhöfninni og hefði ekki tekið upp gegnsæjar reglur sem tryggðu að engum heildsölum væri mismunað í tengslum við innkaup og vöruúrval.
Þá bendir ESA á að aðeins ákveðnar vörur séu auglýstar á vefsíðu Fríhafnarinnar. Svo virðist sem Fríhöfninni beri ekki skylda, samkvæmt núverandi fyrirkomulagi, til að tryggja að auglýsingar séu óháðar upprunalandi vörunnar og að nýjar vörur séu kynntar neytendum. Það er jafnframt brot á 16. grein samningsins að mati ESA.
Rök ESA voru að Fríhöfnin væri í fullri eigu ríkisins í gegnum Isavia og hefði einkasölurétt á áfengi í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Auk þess gerði einkasölurétturinn henni kleift að hafa veruleg áhrif á innflutning á áfengi frá öðrum löndum á EES-svæðinu til Íslands. Bent var á að hlutdeild Fríhafnarinnar í áfengissölu á Íslandi væri 14 prósent.
„Breytingarnar munu hafa þau áhrif að settar verða reglur um vöruval og innkaup Fríhafnarinnar á áfengi sem taka mið af eftirspurn kaupenda en eiga jafnframt að tryggja framleiðendum og birgjum möguleika á að koma vörum í sölu í tollfrjálsri verslun. Þetta er gert til að tryggja gagnsæi og jafnræði aðila sem vilja koma vörum í sölu í Fríhöfninni. Vinna við gerð reglnanna er á byrjunarstigi. Í júní fundar ráðuneytið með ESA þar sem farið verður yfir fyrstu drög að reglunum,“ segir í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Ríkið viðurkennir fyrir ESA að Fríhöfnin sé einokunarverslun
Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Mest lesið

Ætlar ekki að deyja í smán og gefur frá sér auðæfin
Viðskipti erlent


Vilja nota geimflaugar til að flytja hergögn hvert sem er
Viðskipti erlent

Fluttu mun minna til Bandaríkjanna en meira annað
Viðskipti erlent

Minnkuðu lúxuspinna en ekki eldflaugina
Neytendur

„Umbreyting í átt að velsældarhagkerfi krefst hugrekkis“
Viðskipti innlent

Bretar fyrstir til að semja við Trump
Viðskipti erlent

Hagnaðist um rúma fimm milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Viðskipti innlent


Hundrað og fimmtíu manns unnu að opnuninni
Viðskipti innlent