Af þeim 500 einstaklingum sem skráðu sig til þátttöku í verkefninu á vefnum flyicelandic.is voru 46 fyrrum starfsmenn hins fallna WOW, að sögn Jóels Kristinssonar, talsmanns FlyIcelandic. Vefsíða verkefnisins var opnuð eftir að aðstandendur FlyIcelandic höfðu tryggt aðgang að allt að fjórum Airbus flugvélum frá portúgölsku flugvélaleigunni Jet Banus. Frá því að vefsíðan leit dagsins ljós í lok apríl hafa hinir áhugasömu sagst reiðubúnir að leggja nær 500 milljónir króna í verkefnið.
Þrátt fyrir það sem virðist vera töluverður áhugi má sjá af pósti aðstandenda FlyIcelandic til þeirra sem skráðu sig til leiks að töluvert virðist vanta upp á að hugmyndin verði að veruleika.
Til að mynda skorti „hæfa stjórnendur og fyrirtæki úr ferðaþjónustu“ sem gætu séð um farmiðasölu og markaðssetningu fyrir nýja félagið.

Hreiðar og Hluthafi sátu hjá
Þá segjast aðstandendur FlyIcelandic hafa sett sig í samband við Hreiðar Hermannsson og Hluthafa.com, með það fyrir augum að sameina krafta sína.Eins og greint hefur verið frá hafa bæði Hreiðar og Hluthafi unnið að stofnun flugfélags á síðustu vikum. Hreiðar hefur hins vegar fallið frá þeim hugmyndum en engin svör hafa borist frá Hluthafa við ítrekuðum fyrirspurnum fréttastofunnar um stöðu mála.
FlyIcelandic segist hafa boðist til að leggja til fyrrnefndar flugvélar og flugrekstrarsviðið á hagstæðum kjörum á móti íslenskum aðilum sem myndu sjá um sölu, markaðssvið og þjónustu við farþega. Hvorki Hreiðar né Hluthafi hafi hins vegar fallist á slíkar hugmyndir.
Hugsanlega ekki nægur áhugi á stofnun
„Nú þarf að taka ákvörðun um hvort þær flugvélar sem flyicelandic.is getur útvegað fari til Íslands eða til annarra verkefna. Þrátt fyrir jákvæða umræðu og yfirlýsingar í fjölmiðlum er þegar á reynir hugsanlega ekki nægur áhugi á meðal Íslendinga að stofna nýtt flugfélag,“ segir í pósti FlyIcelandic og bætt við:„Við erum reiðubúnir til samstarfs við aðila sem gefa sig fram og hafa bolmagn til að vinna með okkur að verkefninu af fullri alvöru.“