„Við vorum mjög öflugir í dag og unnum sanngjarnan 3-1 sigur,“ sagði Kolbeinn eftir leikinn. Leikurinn var heimaleikur Blika en þar sem að framkvæmdir standa yfir á Kópavogsvelli fór leikurinn í kvöld fram á Würth-vellinum í Árbænum.
„Það var ekkert öðruvísi tilfinning fyrir þennan leik en aðra. Okkur líður vel í Árbænum og við gerðum hann að okkar heimavelli í dag. Við mættum vel peppaðir í þennan leik.“
Kolbeinn segir að hans menn hafi verði staðráðnir í að bæta fyrir 2-2 jafnteflið gegn HK í síðustu umferð. „Það voru allir vel gíraðir í leikinn og við fengum fyrir vikið frábæra liðsframmistöðu,“ sagði hann.
Fyrra mark hans var sérlega glæsilegt - þrumuskot utan teigs eftir kröftugan sprett.
„Ég sá að ég var með tíma og gat snúið. Svo keyrði ég bara á þetta. Ég ætlaði reyndar að taka klobbaskotið fræga. Þetta var svo ekki klobbi en hann endaði inni, þannig að þetta var í góðu lagi,“ sagði Kolbeinn og vísaði til marks Víkingsins Loga Tómassonar gegn Val í fyrstu umferð tímabilsins.
Hann var ánægður með hvernig gekk að fylgja eftir leikáætlun þjálfarans í dag.
„Mér fannst þeir ekki skapa sér mikið. Þeir vilja halda boltanum en við náðum að riðla spilinu þeirra. Við héldum bara okkar plani allan leikinn,“ sagði Kolbeinn.
Kolbeinn: Ætlaði að taka klobbaskotið fræga

Tengdar fréttir

Leik lokið: Breiðablik - Víkingur 3-1 | Öruggur Blikasigur
Kolbeinn Þórðarson var stjarna kvöldsins í sannnfærandi 3-1 sigri Breiðabliks á Víkingi í Pepsi Max-deild karla.