Körfuboltamaðurinn Tyreke Evans hefur verið dæmdur í tveggja ára bann frá NBA-deildinni fyrir brot á reglum deildarinnar og leikmannasamtaka hennar um fíkniefnaneyslu.
Evans, sem er 29 ára, lék með Indiana Pacers í vetur og var með 10,2 stig, 2,9 fráköst og 2,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Samningur Evans við Indiana rennur út í sumar.
Samkvæmt reglum NBA-deildarinnar getur leikmaður verið dæmdur í bann fyrir að falla á lyfjaprófi eða ef hann játar vörslu, neyslu eða sölu eiturlyfja.
Evans getur sótt um að komast aftur inn í NBA eftir tvö ár. Til þess að það gerist þarf hann að fá blessun deildarinnar og leikmannasamtakanna.
Evans var valinn nýliði ársins í NBA tímabilið 2009-10. Auk Indiana hefur hann leikið með Sacramento Kings, New Orleans Pelicans og Memphis Grizzlies.

