Innlent

Snjókoma til fjalla varasöm sumardekkjunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Á Austurlandi má búast við kólnandi veðri í kvöld og snjókomu til fjalla.
Á Austurlandi má búast við kólnandi veðri í kvöld og snjókomu til fjalla. Vísir/vilhelm
Í dag, páskadag, má búast við fremur hægri breytilegri átt á landinu, að mestu skýjað en yfirleitt þurrt. Þó má búast við þokumóðu sums staðar sunnan- og vestantil fram eftir morgni, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings.

Þá verður hægt vaxandi norðaustanátt þegar líður á daginn, 5-13 m/s, og fer að rigna suðaustantil á landinu undir kvöld. Rigning eða slydda á Austurlandi seint í kvöld, en einnig norðaustanlands í nótt.

Það kólnar í veðri og má búast við snjókomu til fjalla, en það er einkum varasamt fyrir þá sem hafa skipt yfir á sumardekk.

Á morgun, annan í páskum, verður norðlægari vindur. Dálítil snjó- eða slydduél norðantil á landinu og hiti yfirleitt 0 til 3 stig.

Mun betra veðurútlit er sunnanlands á morgun, en þar má víða búast við sólarglennum og getur hiti farið í 10 stig þar sem best lætur. Þegar líður á morgundaginn má þó búast við síðdegisskúrum á stöku stað.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag (annar í páskum):

Norðaustlæg átt, 8-13 m/s og dálítil él norðantil, en hægari, skýjað með köflum og stöku skúrir syðra. Heldur vaxandi austanátt með rigningu syðst um kvöldið. Hiti yfirleitt 2 til 7 stig að deginum. 

Á þriðjudag:

Austlæg átt, 8-15 m/s og slydda eða snjókoma norðantil og hiti nálægt frostmarki, en rigning í öðrum landshlutum og hiti 2 til 7 stig. 

Á miðvikudag:

Fremur hæg suðaustlæg átt og úrkomulítið, en hvessir með rigningu í flestum landshlutum þegar líður á daginn. Hlýnandi veður. 

Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti) og föstudag:

Ákveðin austanátt og víða rigning, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast V-lands. 

Á laugardag:

Útlit fyrir norðaustanátt. Víða dálítil væta, en úrkomulítið suðvestantil. Heldur kólnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×